Innlent

Vökuliðar telja fram­boðs­lista Röskvu ókjörgengan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vaka og Röskva eru ósammála í mörgu, til að mynda um hvort listi Röskvu í yfirstandandi kosningum til stúdentaráðs sé kjörgengur.
Vaka og Röskva eru ósammála í mörgu, til að mynda um hvort listi Röskvu í yfirstandandi kosningum til stúdentaráðs sé kjörgengur. Vísir/Vilhelm

Kosningar til stúdentaráðs og háskólaráðs Háskóla Íslands fara fram þessa stundina. Meðlimir Vöku hafa sent erindi til kjörstjórnar kosninganna vegna framboðs Röskvu til stúdentaráðs, sem þeir telja ólöglegt vegna frambjóðanda sem þeir vilja meina að sé ókjörgengur.

Mikael Berg Steingrímsson, formaður kjörstjórnar, segir í samtali við fréttastofu að stjórninni hafi borist erindi sem sé til skoðunar. 

Hann segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið. Kosningunum líkur klukkan sex í kvöld og segist Mikael ekki geta sagt til um hvort niðurstaða muni berast fyrir eða eftir að þeim líkur.

„Þykir það miður að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr“

Rakel Anna Boulter er umræddur frambjóðandi, en hún er sitjandi forseti stúdentaráðs sem er fullt starf. Hún stundar ekki nám við Háskóla Íslands að svo stöddu, sem er skilyrði til að taka sæti í stúdentaráði.

„Þetta var yfirsjón af minni hálfu og annarra að taka sæti á þessum lista. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en í dag þegar okkur var bent á þetta. Mér þykir það miður að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr,“ segir Rakel í samtali við fréttastofu.

Til þess að bjóða fram til háskólaráðs þarf að leggja fram fjögurra manna framboðslista, fyrir tvö sæti sem stúdentar hafa í ráðinu. Rakel sat í fjórða sæti á lista Röskvu.

Ar­ent Orri J. Claessen, formaður Vöku, segir í samtali við Vísi að listi Röskvu í heild sinni sé ólöglegur vegna ókjörgengi Rakelar.

Rakel er á öðru máli, hún segir að restin af lista Röskvu eigi að standa. „Þetta hefur ekki áhrif á kjörgengi hinna fulltrúanna á listanum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×