Innlent

Fag­fé­lögin skrifa undir kjara­samninga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Verið er að skrifa undir.
Verið er að skrifa undir. Vísir/Elísabet Inga

Fagfélögin hafa skrifað undir langtímasamning við Samtök atvinnulífsins. Til fagfélaganna teljast Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, VM og Grafía. Samningurinn er til fjögurra ára og byggir á sömu forsendum og langtímasamningar breiðfylkingar Eflingar, Samiðnar og SGS sem náðust fyrr í vikunni.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir samningana vera raunverulegt tækifæri til þess að ná efnahagslegum stöðugleika.

„Fjölmörg fyrirtæki hafa þegar stigið fram og sýnt stuðning við markmið samninganna í verki og bæði ríki og sveitafélög hafa jafnframt skuldbundið sig til þess að styðja við þau með því að draga úr gjaldskrárhækkunum,“ segir hún í tilkynningu frá samtökunum.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar og til 31. janúar 2028. Með undirritun þessa samnings hafa Samtök atvinnulífsins samið við drjúgan hluta félaga á almennum vinnumarkaði. 

Í tilkynningu frá Samtökum Atvinnulífsins kemur fram að samningsaðilar hafi sett sér skýr markmið um gerð langtímakjarasamninga sem stuðli að minnkandi verðbólgu og lækkun vaxta. Forsendur samningsins taki mið af þeim markmiðum.

„Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa. Standist forsendur kjarasamninga ekki ber forsendu- og launanefnd að taka ákvörðun um viðbragð,“ segir í tilkynningunni.

„Hagtölurnar sýna okkur að efnahagslegt svigrúm fyrir launahækkanir sem samræmast verðstöðugleika er á bilinu 3,5%-4%. Þar sem aðilum vinnumarkaðarins hefur lánast að gera langtímasamning í takt við efnahagslegt svigrúm er mikilvægt að enginn hlaupist undan merkjum,“ segir Sigríður Margrét.

„Nú þurfa allir að sýna ábyrgð í verki og stuðla að því að verðbólguvæntingar geti lækkað svo vextir geti fylgt í kjölfarið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×