Innlent

Spænskir líf­fræðingar komu lunda í Reynisfjöru til bjargar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Heiðrún segir lundann augljóslega hafa verið vængbrotinn.
Heiðrún segir lundann augljóslega hafa verið vængbrotinn. Heiðrún Hauksdóttir

Tveir spænskir líffræðingar, sem vinna á veitingastaðnum Svarta fjaran í Reynisfjöru, komu lunda, sem fannst slasaður í fjörunni, til bjargar í morgun. Nokkuð óvenjulegt telst að lundi sé kominn til landsins í byrjun marsmánaðar. 

Heiðrún Hauksdóttir, leiðsögumaður hjá Tröll. Heiðrún Hauksdóttir

Leiðsögumaðurinn Heiðrún Hauksdóttir var í Reynisfjöru snemma í morgun þegar hún gekk fram á lunda, sem lá í Reynisfjöru augljóslega meiddur. 

„Hann hefur augljóslega hrakist til landsins greyið. Hann var ekki sprækur,“ segir Heiðrún í samtali við fréttastofu. 

Hún geti ekki getið sér til um hvers vegna þessi eini lundi er kominn til landsins: Hvort hlýindin að undanförnu hafi ruglað hann í rýminu eða hann hafi orðið eftir á landinu í haust og lifað veturinn af í kuldanum.

Hér má sjá hve vel lundinn féll í umhverfi sitt í fjörunni.Heiðrún Hauksdóttir

„Hann hafði hjúfrað sig niður í sandinn. Ég vildi ekki að einhver traðkaði yfir hann, hann var greinilega vængbrotinn. Það er spurning hvort fálki hafi slegið hann. Ég vildi ekki skilja hann alveg eftir í reiðuleysi,“ segir Heiðrún. 

Búið er að búa um lundann í pappakassa.Aðsend

„Það vill svo vel til að það er spænskt par að vinna á veitingastaðnum þarna, Svörtu fjörunni, og þau eru bæði líffræðingar. Hún, sem heitir Áróra, er fuglafræðingur og er vön að merkja fugla heima á Spáni. Þau komu og hún vissi alveg hvernig hlúa ætti að honum. Ekki vildi maður að líf hans endaði þannig að einhver sparkaði í hann eða traðkaði á honum,“ segir Heiðrún. 

Nokkuð óvenjulegt má teljast að lundi finnist við landið á þessum árstíma en dvalartími hans hér við Íslandsstrendur er frá apríl fram í september. Fuglinn er því nokkrum vikum of snemma á ferðinni. 

„Þeir eiga ekki að vera komnir núna en það er erfitt að vita hvort hann villtist núna eða hefur verið að hrekjast hérna í vetur.“

Spænsku sjávarlíffræðingur sem vinnur á veitingastað í Reynisfjöru sótti lundann.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×