Lífið

Fékk alla í vélinni til að syngja afmælissönginn til eigin­konunnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Þetta var þrælskemmtilegt. Ég fékk góðar undirtektir og það klöppuðu allir,“ segir Andri Harfn flugstjóri.
„Þetta var þrælskemmtilegt. Ég fékk góðar undirtektir og það klöppuðu allir,“ segir Andri Harfn flugstjóri. Aðsend/Vísir/Vilhelm

Andri Hrafn Agnarsson, flugstjóri hjá Play og fasteignasali hjá Domus Nova, vaknaði ekki við hlið eiginkonu sinnar Söru Petru á afmælisdaginn hennar síðastliðinn miðvikudag. Hann þurfti að fljúga farþegaflugvél frá Dublin til Íslands, en ákvað þrátt fyrir það að skila góðri afmæliskveðju til hennar.

„Þetta var eiginlega bara skyndiákvörðun hjá mér. Ég var ekki búinn að ákveða þetta fyrr en ég var að fara að grípa í og kynna okkur,“ segir Andri sem tekur fram að áhöfn vélarinnar hafi ekki vitað af uppátæki hans.

Andri ákvað að syngja afmælissönginn til Söru í gegnum kallkerfi flugstjórans og fékk farþega vélarinnar til að taka undir á meðan hann tók atriðið upp.

„Þetta var þrælskemmtilegt. Ég fékk góðar undirtektir og það klöppuðu allir.“

Andri segir að þegar hann hafi lent í Keflavík hafi hann deilt myndbandinu á Facebook og fengið jákvæð viðbrögð.

Andri Hrafn var í viðtali við Ísland í dag fyrir fjórum árum.

Þó að Andri hafi ekki vaknað heima um morguninn á afmælisdegi Söru þá ætla þau að halda upp á afmælið um helgina, og hvar annars staðar en í Dublin.

„Það vill svo skemmtilega til að við erum að fara í frí, ég og frúin, til Dublin í fyrramálið,“ sagði Andri þegar fréttastofa náði tali af honum á fimmtudagskvöld. Andri ætlar ekki að stýra þeirri vél. Þá verður hann óbreyttur farþegi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×