Innlent

Ræða mögu­legar verk­falls­að­gerðir á Kefla­víkur­flug­velli

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá fundi ríkissáttasemjara í dag.
Frá fundi ríkissáttasemjara í dag. Vísir/Einar

Fulltrúar VR mættu til síns fundar með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag. Þetta var fyrsti fundurinn frá því VR klauf sig frá breiðfylkingunni fyrir rúmri viku. Formaðurinn segir ýmis sérmál VR standa út af borðinu.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR er hæfilega bjartsýnn á gang viðræðnanna. Þær byggi auðvitað töluvert á þeirri vinnu sem átt hafi sér stað á vettvangi viðræðna breiðfylkingarinnar og SA.

„Við erum auðvitað með okkar mál sem við þurfum að klára og taka eflaust einhvern tíma. Síðan erum við líka með sérstaka samninga sem þarf að klára eins og til dæmis uppi á Keflavíkurflugvelli.“

Ragnar Þór Ingólfsson, Ástráður Haraldsson, og Sigríður Margrét Oddsdóttir voru á fundinum.Vísir/Einar

Eru möguleikar á því að þar verði boðað til verkfalls?

„Ég ætla svo sem ekkert að fullyrða um það. Við erum að funda með trúnaðarmönnum okkar uppi á Keflavíkurflugvelli í kvöld og metum síðan stöðuna eftir það. Þar er fólk að vinna í vinnufyrirkomulagi sem er nánast óboðlegt og þekkist ekki undir okkar kjarasamningi,“ segir Ragnar Þór.

Nauðsynlegt væri að leiðrétta mál þessara hópa. Þetta er fólk sem þjónustar og skráir inn farþega og farangur farþega allra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli.

Hverjar telur þú líkurnar á að deilan fari í hart þar ef ekki semst á næstu dögum?

„Eigum við ekki að sjá fyrst hvernig viðsemjendur okkar taka okkur og meta síðan stöðuna eftir það. Við munum funda með okkar fólki í kvöld og þá ætti ýmislegt að skýrast,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×