Fótbolti

„Gerði mig sterkari“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Rubiales kyssir hér Jennifer Hermoso í verðlaunaafhendingunni á HM í fyrrasumar.
Luis Rubiales kyssir hér Jennifer Hermoso í verðlaunaafhendingunni á HM í fyrrasumar. Getty/Noemi Llamas

Spænska knattspyrnukonan Jenni Hermoso segir það hafi verið sárt að vera sett út úr landsliðinu eftir að hún kærði fyrrum forseta spænska knattspyrnusambandsins fyrir kynferðislegt áreiti í verðlaunaafhendingunni á HM í Ástralíu .

Landsliðsþjálfarinn Montse Tomé valdi hana ekki í fyrsta verkefnið eftir HM og sagði ástæðuna vera að hún hafi viljað hlífa Hermoso enda var mikið í gangi á þeim tíma.

Luis Rubiales, þá forseti spænska sambandsins, hafði kysst hana í verðlaunaafhendingunni og haldið því síðan fram að það hafi verið samþykktur koss. Hermoso hefur alla tíð neitað slíku og sagt að kosinn hafi verið algjörlega óumbeðinn.

Rubiales sagði á endanum af sér sem forseti sambandsins og málið hefur síðan farið fyrir dómstóla.

Hermoso var komin aftur í landsliðið í október og skoraði þá sigurmark á 89. mínútu á móti Ítalíu í sínum fyrsta leik eftir endurkomuna. Hún hefur haldið sæti sínu síðan.

„Ég skildi ekki þessa ákvörðun og mun aldrei skilja hana,“ sagði hin 33 ára gamla Jenni Hermoso um að hafa ekki verið valin í fyrsta hóp eftir HM.

„Þetta særði mig og er enn sárt. Þetta er samt eitthvað sem er búið og gert og það besta fyrir mig er að vera aftur með landsliðinu og að fá að spila annan úrslitaleik með landsliðinu,“ sagði Hermoso.

„Síðasti blaðamannafundurinn minn var fyrir undanúrslitaleikinn á HM. Það hefur mikið breyst síðan þá og ég veit varla hvað ég á að segja,“ sagði Hermoso.

„Ég hef breyst mikið, bæði persónulega en líka hvað varðar fótboltann. Allt þetta gerði mig sterkari. Ég hef lært mikið af þessu öllu saman og ég er heppin að fá að taka þátt í öðrum úrslitaleik sex mánuðum síðar,“ sagði Hermoso.

„Það er mikilvægt mig að spila annan úrslitaleik og halda áfram með landsliðinu. Mér líður vel, fótboltinn heldur áfram að gefa í mínu lífi og ég held áfram að njóta íþróttarinnar,“ sagði Hermoso.

Hermoso unnu fyrstu Þjóðadeild kvenna í gær með 2-0 sigri á Frakklandi í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×