Innlent

Hafnar því að bera á­byrgð á þenslu og húsnæðisskorti

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarnheiður segir ferðaþjónustuna hafa mátt ómaklega sitja undir umræðu þess efnis að hún beri ábyrgð á þenslu, verðbólgu, háum vöxtum og húsnæðisskorti.
Bjarnheiður segir ferðaþjónustuna hafa mátt ómaklega sitja undir umræðu þess efnis að hún beri ábyrgð á þenslu, verðbólgu, háum vöxtum og húsnæðisskorti. vísir/egill

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir greinina ómaklega hafa mátt sitja undir því að hún beri ábyrgð á þenslu, verðbólgu, háum vöxtum og húsnæðisskorti.

Þetta kemur fram í grein sem Bjarnheiður skrifaði og birti á Vísi nú rétt í þessu. Hún segir ferðaþjónustuna og innflytjendur eiga það sameiginlegt að vera með einum hætti eða öðrum áberandi í fjölmiðlaumræðunni og í spjalli á kaffistofum landsins. Heyrst hafi að ferðaþjónustan standi helst á bak við þann vöxt sem hefur orðið í fjölda starfandi innflytjenda frá árinu 2017. En tölurnar segi aðra sögu.

„Frá árinu 2017 hefur fjöldi innflytjenda sem starfa í ferðaþjónustu aukist um 4.737 einstaklinga. Í atvinnugreinum iðnaðarins hefur sá fjöldi aukist um 5.036 einstaklinga á sama tíma og hjá hinu opinbera hefur starfandi innflytjendum fjölgað um 4.057 einstaklinga,“ segir Bjarnheiður og vitnar í tölur frá Hagstofu Íslands.

Hún segir heildarfjölda innflytjenda sem störfuðu á Íslandi 2023 vera 54.114 einstaklinga.

„Í ferðaþjónustu störfuðu 14.062 innflytjendur í fyrra, 3.273 í sjávarútvegi og 13.284 í atvinnugreinum iðnaðarins. Hjá hinu opinbera störfuðu svo 8.924 innflytjendur á sama tíma. Fjórðungur alls vinnuafls á Íslandi er þannig af erlendu bergi brotinn. Í ferðaþjónustu var hlutfall innflutts vinnuafls 44% í fyrra, 39% í sjávarútvegi og í atvinnugreinum iðnaðarins var það 26% á sama tímapunkti. Hjá hinu opinbera var hlutfall innflutts vinnuafls hins vegar 12%.“

Bjarnheiður bendir á að innflytjendur séu nauðsynleg viðbót við atvinnulífið og það hljóti að teljast ósanngjörn nálgun að tala um sem hingað flytjast, til þess að sinna hinum ýmsu störfum í grunnatvinnugreinum þjóðarbúsins og hjá hinu opinbera, sem byrði á samfélaginu. Nær væri að fagna.

„Hvar værum við stödd varðandi lífskjör á Íslandi án innflutts vinnuafls við störf í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og iðnaði? Hvar væri opinber þjónusta stödd?“ spyr Bjarnheiður og hvetur til vandaðrar umræðu sem byggi á staðreyndum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×