Innlent

Borgar­stjórinn segist heita Heiða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur gefur kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur gefur kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Vísir/Einar

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, virðist ekki hafa tekið það stólpagrín sem gert var að henni í áramótaskaupinu inn á sig en hún svaraði því í myndbandi sem hún birti á samfélagsmiðlum.

Heiða Björg tók við embætti borgarstjóra í febrúar á síðasta ári þegar Einar Þorsteinsson þáverandi borgarstjóri sleit meirihlutasamstarfi Framsóknar, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Svo virðist þó sem að stólaskiptin hafi farið fram hjá mörgum landsmönnum. Gert var að því skóna ítrekað í skaupinu að enginn vissi hvað borgarstjórinn héti, ekki einu sinni frændi hennar.

Heiða Björg tók vel í grínið og birti myndband á reikningi sínum á TikTok þar sem hún kynnir sig formlega fyrir borgarbúum.

„Ég heiti vissulega Heiða og er borgarstjórinn í Reykjavík og það er heiður að vera borgarstjórinn ykkar,“ sagði hún á meðan hún farðaði sig.

@heidahilmis Heiða Björg Hilmisdóttir heiti ég!⭐️🥲 #skaupið2025 #borgarstjórn #reykjavik #fyrirþig #foryou ♬ original sound - Heiða Björg

Það kemur sér væntanlega ekki vel að enginn viti hvað maður heiti þegar maður stendur í kosningabaráttu, bæði um sæti á lista Samfylkingarinnar og svo í sveitarstjórnarkosningum. Pétur Hafliði Marteinsson, rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður, gaf um daginn kost á sér í oddvitasætið hjá Samfylkingunni en kosið verður um það 24. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×