Innlent

Köldu vatni hleypt á hafnar­svæðið

Árni Sæberg skrifar
Vatnið streymir um nýja kaldavatnslögn.
Vatnið streymir um nýja kaldavatnslögn. Vísir/Sigurjón

Byrjað er að hleypa köldu vatnið á kerfið á hafnarsvæðinu í Grindavík. Almannavarnir ítreka að mikilvægt er að eigendur fasteigna séu viðstaddir þegar vatni er hleypt á.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að vatni verði ekki hleypt á bæinn í heild heldur einungis á hafnarsvæðið í dag og það verði gert í þremur hollum. Klukkan 10 hafi vatni verið hleypt á græna svæðið á myndinni hér að neðan, klukkan 13 verði því hleypt á gula svæðið og loks klukkan 14 á rauða svæðið.

Við áhleypingu verði fyrst skolað út úr lögnunum áður en þrýstingur verður byggður í dreifkerfinu, því þurfi inntakslokar kalda vatnsins í fasteignum að vera lokaðir í upphafi. Mikilvægt sé að hafa í huga að áreiðanleiki viðgerðar undir nýja hrauninu er ekki þekktur og því gæti viðgerð brugðist og vatnið farið aftur af.

Þá kunni að vera að dreifikerfi vatnsveitunnar innanbæjar leki eftir jarðhræringarnar.

Ekki viðbragðsaðila að vakta eignir

Það muni skýrst á næstu dögum hvort viðgerð haldi, það er eftir að fullur þrýstingur er kominn á kerfið. Ákvörðun um það að setja kalt vatn á fleiri svæði og í hvaða röð verði svo tekin á næstu dögum.

Það sé gríðarlega mikilvægt fyrir verkefnið í heild sinni að fasteignaeigandi fyrir hverja fasteign, eða fulltrúi hans sé viðstaddur og því hafi verið haft samband við alla eigendur og þeir hafi mætt klukkan 09 í Slökkvistöð Grindavíkur þar sem verklag áhleypingar var kynnt nánar.

„Þegar áhleyping á sér stað vaktar hver og einn sína eign. Viðbragðsaðilum er ekki ætlað það hlutverk eða slík vernd eigna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×