Innlent

Óska eftir nafnatillögum á sam­einað sveitar­fé­lag

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Tálknafjörður, hér á mynd, sameinast Vesturbyggð í maí.
Tálknafjörður, hér á mynd, sameinast Vesturbyggð í maí. vísir/vilhelm

Sveitarfélögin Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa óskað eftir tillögum frá íbúum að nafni nýs sameinaðs sveitarfélags. 

Á vefsíðu Tálknafjarðar kemur fram að frestur til innsendingar sé til fimmtudagsins 29. febrúar. 

Sameining Vestfjarðar-sveitarfélaganna Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar var samþykkt í báðum sveitarfélögum í október á síðasta ári. Þann 7. febrúar síðastliðinn var ákveðið að hefja ferli við val á nafni á sameinað sveitarfélag. Sameiningin tekur gildi 19. maí, 15 dögum eftir kosningar til sameiginlegrar sveitarstjórnar.

„Óskað er nú eftir tillögum að nafni frá íbúum og í framhaldi mun undirbúningsstjórn senda tillögur til Örnefnanefndar til umsagnar. Tillögur íbúa verða leiðbeinandi, en ákvörðun um nafn hins sameinaða sveitarfélags er í höndum nýrrar bæjarstjórnar að fenginni umsögn Örnefnanefndar í samræmi við sveitarstjórnarlög,“ segir í frétt Tálknafjarðar.

Samkvæmt lögum skal nafnið samræmast íslenskri málfræði og málvenju og tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. 

„Æskilegt að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, það er að heiti sveitarfélagsins endi til dæmis á -hreppur, -bær, –kaupstaður, -byggð, -þing eða að skeytt sé Sveitarfélagið framan við nafnið.“

Nánar um málið hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×