Innlent

Gunnar J. Árna­son er látinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunnar J. Árnason listheimspekingur er látinn.
Gunnar J. Árnason listheimspekingur er látinn.

Gunnar J. Árnason heimspekingur í listum og fagurfræði lést laugardaginn 10. febrúar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum. Gunnar var fæddur í Reykjavík 27. nóvember 1959. Foreldrar hans eru Árni Kristinsson læknir (f. 1935) og Erla Cortes ritari (f. 1939 d. 2006). Gunnar ólst upp á Englandi fyrstu ár ævi sinnar en fluttist síðar í vesturbæ Reykjavíkur.

Gunnar lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York áður en hann sneri sér að heimspeki og fagurfræði, sem hann nam við Háskóla Íslands og síðar við Cambridge háskóla á Englandi. Hann kenndi heimspeki lista og fagurfræði um árabil við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Eftir Gunnar liggja fræðibækur og fjöldi greina á sviði myndlistar og heimspeki. Árið 2017 kom út bók hans Ásýnd heimsins - Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Þá var hann einn höfunda ritraðarinnarÍslensk listasaga sem Forlagið og Listasafn Íslands gáfu út árið 2011.

Gunnar skrifaði fjölmargar greinar í sýningarskrár fyrir helstu söfn landsins. Hann skrifaði bækur og bókakafla, auk þess að flytja fjölsótta fyrirlestra um marga listamenn samtímans. Gunnar var myndlistargagnrýnandi um langt skeið fyrir helstu fjölmiðla landsins eins og Morgunblaðið, RÚV, Fréttablaðið, Pressuna og Tímann. Greinar eftir hann má m.a. finna í Lesbók Morgunblaðsins, Skírni, Ritinu, TMM, Siksi og Andvara. Gunnar átti sæti í dómnefnd myndlistaverðlaunanna Carnegie Art Award á árunum 2008-2012.

Gunnar starfaði sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, nú barna- og menntamálaráðuneyti, frá árinu 2004 þar til hann lést.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Soffía Karlsdóttir og eru börn þeirra Árni Freyr, Sunnefa og Júlía.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×