Innlent

Ekki hægt að segja til um hve­nær heita vatnið kemur á

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Almannavarnir og HS Orka undirbúa lagningu annarrar hjáveitulagnar eftir að hin laskaðist undir hrauni í nótt. Heitavatnslaust er í Reykjanesbæ og álagið á rafmagnskerfið slíkt að slegið hefur út víða á svæðinu og segja almannavarnir kerfið vera að þolmörkum komið.

Samkvæmt tilkynningu frá HS Orku var byrjað strax í nótt að safna efni og skipuleggja flutning á því. Lagður verður vegur yfir nýja hraunið og suðustöðvar settar upp báðum megin hrauntungunnar. Leggja þarf 600 metra af nýrri lögn.

Að því er segir í tilkynningunni mun framkvæmdin taka nokkra daga en enn er of snemmt að áætla verklok. Stórvirkar vinnuvélar muni brjóta hraunið upp, þjappa það niður og leggja malarpúða ofan á þvert yfir hraunið.

„Ljóst er að framkvæmdin er afar umfangsmikil almannavarnaaðgerð og nokkurn tíma mun taka áður en hægt verður að segja fyrir um möguleg verklok. Allt kapp verður lagt á að vinna verkið eins hratt og nokkur kostur er,“ kemur fram í tilkynningunni.

Lögreglan biðlar til íbúa

Lögreglan á Suðurnesjum biðlar til íbúa og atvinnurekenda á svæðinu að spara orkuna. Í færslu sem hún birti á Facebook í dag. 

„Nú verðum við að sýna hvað í okkur býr upp á að við höldum rafmagni á bænum svo vð náum nú að kynda hjá okkur,“ skrifar hún.

Lögreglan hvetur fólk til að hlaða ekki rafmagnsbílinn, taki útiljós úr sambandi og vera aðeins með einn rafmagnshitagjafa í gangi í einu. 

„Við skorum á verktaka að taka nýbyggingar úr sambandi og í raun bara verða allir að leggjast á eitt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×