Veður

Fimm­tán alhvítir dagar og sól­skin undir meðal­lagi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ferðamennirnir létu veðrið ekkert stoppa sig í Reykjavík í janúar.
Ferðamennirnir létu veðrið ekkert stoppa sig í Reykjavík í janúar. Vísir/Vilhelm

Hiti var undir meðallagi í janúar um land allt. Þessi fyrsti mánuður ársins var tiltölulega kaldur og einkenndu hann miklar umhleypingar undir lokin. Samgöngur riðluðust og eitthvað var um rafmagnstruflanir vegna eldinga. Það kemur fram í nýrri samantekt Veðurstofunnar á tíðarfari í janúar.

Meðalhiti í Reykjavík í janúar var -0,1 stig. Það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig, 1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -0,2 stig og 0,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Samkvæmt samantekt Veðurstofunnar var hiti undir meðallagi á mest öllu landinu. Kaldast var á Austurlandi en hlýrra á vestari hluta landsins. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,2 stig á Skarðsheiði en neikvætt hitavik var mest -1,9 stig á Eskifirði.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,0 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -7,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,2 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,1 stig á Sauðanesvita þann 8. janúar. Mest frost í mánuðinum mældist -24,9 stig á Sauðárkróksflugvelli.

Úrkoma yfir meðallagi

Úrkoma í Reykjavík mældist 92,7 mm sem er um 5 prósentustigum umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 40,9 mm sem er um 70 prósent af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í janúar 102,2 mm og 130,6 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 18 sem eru þremur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga sem eru jafn margir og í meðalári.

Fimmtán alhvítir dagar og sólskin undir meðallagi

Það voru 15 alhvítir dagar í Reykjavík í janúar, sem er þremur dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 19, þremur færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Þá segir í samantekt Veðurstofunnar að sólskinsstundir í Reykjavík hafi mælst 15,6, sem er 6,9 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 5,7 sem er tæpri einni stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur á landsvísu var 0,3 m/s undir meðallagi. Hvassast var þ. 16. (norðanátt) og þ. 25. Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 1000,5 hPa hPa í Reykjavík. Það er 3,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1041,7 hPa á Fagurhólsmýri þ. 10 og í Skaftafelli þ. 11. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 957,2 hPa á Ísafirði þ. 25.


Tengdar fréttir

Far­angur­s­kerra fauk á flug­vél Icelandair í hríðinni

Flugvél Icelandair var á leið út á flugbraut þegar farangurskerra fauk utan í hreyfil hennar. Farþegar hafa verið í flugvélinni í rúma fimm tíma og komast ekki út vegna brjálaðs roks. Þá hefur öllum flugferðum Icelandair frá vellinum verið aflýst í kvöld vegna veðurs.

Vindur og él nái hámarki fyrri part kvölds

Veðurfræðingur segir að éljagangur verði langt fram á kvöld. Veðrið nái hámarki snemma í kvöld hvað varðar vind og ákafa éljagangsins. Veðrið róist á morgun og verði orðið gott á sunnudag. Talverðum kulda er síðan spáð í næstu viku.

Gott að hreinsa vel frá niðurföllum í kvöld

Seint í kvöld og nótt er spáð hlýju veðri og talsverðri rigningu, einkum á sunnanverðu landinu. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns. Gefin hefur verið út gul viðvörun vegna veðursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×