Innlent

Vill þjálla nafn á hreppinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að kjósa um hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins, og hvert nýtt nafn ætti að vera. Sveitarstjóri telur að nýrra nafn verði að vera þjálla.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnarinnar frá 10. janúar síðastliðnum. Þar kemur fram að Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri telji mikilvægt að breyta nafni sveitarfélagsins, og að nýtt nafn beri sterkari tengingu til staðsetningar sveitarfélagsins á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar. 

„Að því gefnu leggur sveitarstjóri til að kosið verði um hvort halda eigi núverandi nafni Skeiða- og Gnúpverjahreppur eða hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins. Kosið verði samhliða forsetakosningum 1. júní 2024,“ segir í fundargerðinni.

Þar segir að sveitarstjórn telji mikilvægt að góð umfræða fari fram um mögulega nafnabreytingu, og forsendur hennar. Sveitarstjóra var því falið að boða til íbúafundar í mars, þar sem málið yrði kynnt og rætt. Samþykkt var með fjórum atkvæðum af fimm að kosið yrði um mögulega nafnabreytingu, og hvert nýtt nafn ætti þá að vera. Kosningar færu fram samhliða forsetakosningum 1. júní 2024. 

Gunnar Örn Marteinsson sveitarstjórnarfulltrúi sat hjá við afgreiðslu tillögunnar. 

Ég sé ekki ástæðu til að breyta um nafn á sveitarfélaginu, verði farið í þá vegferð tel ég að óska eigi eftir hugmyndum að nafni og síðan verði valdar tvær eða þrjár hugmyndir og kosið um þær,“ segir í bókun sem Gunnar lagði fram við þetta tilefni.

Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust undir nafninu Skeiða- og Gnúpverjahreppur vorið 2002. Kosið var um nýtt nafn á hreppinn árið 2016 og hlaut þá nafnið Skeiða- og Gnúpverjahreppur 53,11 prósent greiddra atkvæða. Þjórsárhreppur hlaut næstflest atkvæða,  og Þjórsársveit þriðju flest.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×