Innlent

Segir geranda sinn hafa fengið myndir frá lög­reglu af nöktum líkama sínum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðný Bjarnadóttir komst að því í haust, tveimur árum eftir að hún kærði kynferðisbrot til lögreglu, að ljósmyndir sem teknar voru af áverkum á nöktum líkama hennar á neyðarmóttöku Landspítalans voru sendar til sakbornings í pdf skjali. Hann mun því eiga myndir af áverkunum sem hann veitti henni út ævina.
Guðný Bjarnadóttir komst að því í haust, tveimur árum eftir að hún kærði kynferðisbrot til lögreglu, að ljósmyndir sem teknar voru af áverkum á nöktum líkama hennar á neyðarmóttöku Landspítalans voru sendar til sakbornings í pdf skjali. Hann mun því eiga myndir af áverkunum sem hann veitti henni út ævina. Vísir/Vilhelm

„Ég kærði kynferðisofbeldið sem ég var beitt til lögreglu vegna þess að ég hélt að lögin myndu vernda mig. Mér datt ekki í hug að kerfið myndi sjálfkrafa brjóta á mér líka.“

Þetta skrifar Guðný S. Bjarnadóttir, stjórnarformaður Hagsmunasamtaka brotaþola, í grein sem birtist á Vísi í dag. Guðný hefur í tvígang komið fram í viðtali hjá Vísi og talað um kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir og afleiðingar þess. 

Í viðtalinu lýsir hún því hvað kom fyrir hana. Henni hafi verið nauðgað nóttina eftir að hún hélt upp á fertugsafmælið sitt. Morguninn eftir leitaði hún á neyðarmóttöku Landspítalans þar sem áverkar hennar voru skrásettir og myndaðir. 

„Nokkrum dögum eftir þetta fyllist ég áhyggjum yfir því hver fái að sjá umræddar ljósmyndir. Ég spyr og fæ svarið: Ekki hafa áhyggjur, þær eru á læstum gagnagrunni og verða fluttar yfir á annan læstan gagnagrunn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Enginn annar mun sjá þessar myndir,“ skrifar Guðný í greininni, sem birtist á Vísi í morgun. 

Húðflúr og annað persónugreinanlegt á ljósmyndunum

Hún segist hafa fengið áfall þegar hún uppgötvaði, rúmum tveimur árum eftir að brotið var á henni, að ljósmyndirnar, sem sýna áverkana sem henni voru veittir samhliða kynferðisofbeldi, væru komnar í hendur mannsins sem á henni braut. 

„Ekki bara í hans hendur, heldur einnig réttargæslumanns míns, verjanda sakbornings og að lokum eru þær sendar til mín í tölvupósti. Ég vildi að ég hefði aldrei séð þessar myndir. Sumar þeirra eru þess eðlis að þær eru persónugreinanlegar. Húðflúr sjást og sjónarhornið afmarkast ekki einungis við áverkann og staðsetningu hans á líkamanum mínum,“ segir Guðný. 

„Í einu tilviki var verið að ljósmynda áverka á hægri öxl minni, en það sem sést á myndinni er kona sem situr í hnipri, nakin, með lak til að hylja sig að framan. Ég finn svo til með henni því ég veit hvaða erfiðu skref bíða hennar. Ég vildi að ég gæti varað þessa konu við að íslenska ríkið muni nota myndirnar til að brjóta enn frekar á henni, með því að senda nekt hennar og varnarleysi með tölvupósti til mannsins sem er síst treystandi fyrir því.“

„Þolandinn er afmennskaður og smættaður“

Hún segir að til þess að standa vörð um viðkvæm gögn tíðkist að málsaðilar mæti á staðinn, til dæmis til saksóknara eða dómstóla, og fái að fletta í gegnum gögnin undir eftirliti. Ekki sé heimilt að fara með gögnin úr húsi eða afrita þau af öryggisástæðum.

„Önnur leið er að senda gögnin stafrænt og krefjast þess að viðtakandinn auðkenni sig með rafrænum skilríkjum, líkt og gert er af hálfu neyðarmóttökunnar þegar ljósmyndir af kynferðisbrotaþolum eru sendar þangað til lögreglunnar með aðstoð gagnagrunns, sem er margverðlaunaður fyrir öryggi,“ segir Guðný. 

Þessum sjónarmiðum sé hins vegar fleygt frá borði hjá lögreglu, sem hali gögnunum niður og færi yfir í venjulegt pdf skjal  - skjal sem hver sem er geti afritað og dreift að vild - og sendi áfram með tölvupósti til sakbornings eins og hvert annað viðhengi. 

Fram kemur í svari frá héraðssaksóknara við fyrirspurn Guðnýjar um málið, sem fréttastofa hefur undir höndum, að myndir af kynfærum og áverkum þar séu aldrei afhentar verjendum. Þær séu geymdar á dulkóðuðum lyklum og fylgi málum til héraðssaksóknara án þess að lögregla opni þá lykla eða skoði innihaldið. 

„Þetta er óskiljanlegur gjörningur í alla staði, sem grefur undan þeim öryggisráðstöfunum sem viðhafðar eru í fyrri hluta ferilsins,“ segir Guðný.

„Það er skiljanlegt að sakborningur í sakamáli hefur rétt á að sjá öll gögn í máli á hendur honum, þar á meðal áverkaljósmyndir. Það er hins vegar óskiljanlegt að gefa honum afrit af umræddum ljósmyndum án nokkurrar tryggingar fyrir því að hann dreifi þeim ekki um allt internetið ef honum sýnist,“ segir hún. 

„Það er óskiljanlegt að réttur hans til að eiga nektarmyndir af þolanda sínum vegi þyngra en réttur þolandans fyrir friðhelgi. Þolandinn er afmennskaður og smættaður niður í vettvang glæps.“

Kerfið brjóti áfram á þolendum

Hún segist hafa kært kynferðisofbeldið sem hún var beitt til lögreglu þar sem hún taldi lögin myndu vernda sig. Henni hefði ekki dottið í hug að kerfið bryti á henni líka. 

„Brjóta á rétti mínum til réttlátrar málsmeðferðar. Brjóta á rétti mínum til upplýsinga og brjóta að lokum á mér með því að færa manninum sem nauðgaði mér ljósmyndir á silfurfati sem gera honum kleift að halda áfram að beita mig ofbeldi ævilangt, enda renna stafrænar ljósmyndir aldrei út og netið gleymir engu,“ segir Guðný. 

„Hvers virði eru verðlaun fyrir öryggi gagnagrunns þegar viðkvæmasta tegund gagna er síðan send sakborningi til að eiga og ráðstafa að vild? Hvernig erum við orðin svo tilfinningalega aftengd að fólkinu, sem vinnur í þessum málaflokki alla daga, finnst ekkert óeðlilegt að nektarmyndir séu settar í hendurnar á grunuðum kynferðisbrotamönnum?“

Myndir af kynfærum aldrei prentaðar út

Fram kemur í svari Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara við skriflegri fyrirspurn fréttastofu um málið að meginregla sakamálalaga kveði á um að verjandi eigi rétt á að fá afrit af öllum skjölum máls. Það hafi verið túlkað þannig að það taki til allra skjala í þrengri merkingu en ef um rafræn gögn er til dæmis að ræða hafi verjandi heimild til að kynna sér gögnin. 

„Ef það hafa verið teknar myndir af áverkum á NM (neyðarmóttöku) og þær prentaðar út þá á verjandi rétt á afriti af þeim. Það hefur hins vegar verið reynt að gæta þess, og þá með einkahagsmuni brotaþola í huga, að myndir séu ekki persónugreinanlegar. Það er þó ekki hægt að útiloka að einhverjar myndir með persónugreinanlegum einkennum hafi verið settar með skjölum máls þótt mikil áhersla sé lögð á að passa slíkt,“ segir í svarinu. 

„Þess má auk þess geta að myndir af áverkum á kynfærum, klofbót í nærbuxum og annað sem er mjög persónulegt, eru ekki prentaðar út og þ.a.l. ekki afhentar en ef þess er óskað getur verjandi kynnt sér slík gögn.“


Tengdar fréttir

„Að tengja þennan dag við fleiri já­kvæða hluti er partur af batanum“

Guðný S. Bjarnadóttir beið í 721 dag frá því að hún kærði mann fyrir nauðgun þar til héraðssaksóknari tilkynnti henni að ekki yrði gefin út ákæra í máli hennar. Í dag verður hún 42 ára gömul, í dag eru tvö ár liðin síðan henni var nauðgað og í dag verður stofnfundur nýrra samtaka hennar - Hagsmunasamtaka brotaþola. 

„Hann tók á­kvörðun og hann braut á mér“

Kona sem kærði kynferðisbrot til lögreglu í október segir að mál hennar hafi verið sett neðst í málabunka kynferðisbrotadeildar vegna þess að hún hafi ekki kært málið fyrr en þremur dögum eftir að brotið var framið gegn henni. Fimm og hálfur mánuður hafi liðið frá því að hún kærði brotið þar til meintur ofbeldismaður hennar var boðaður í skýrslutöku af lögreglu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×