Bíó og sjónvarp

Mando og Grogu á leið á hvíta tjaldið

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þættirnir um Mando og Grogu hafa leitt af sér aðrar þáttaraðir sem gerast í Star Wars heiminum, Book of Boba Fett og Ahsoka. 
Þættirnir um Mando og Grogu hafa leitt af sér aðrar þáttaraðir sem gerast í Star Wars heiminum, Book of Boba Fett og Ahsoka.  AP

Framleiðslurisinn Disney tilkynnti í dag að bíómynd um sögupersónurnar Mandalorian og Grogu, sem finna má í sjónvarpsþáttunum The Mandalorian sem gerast í Star Wars-heiminum, sé nú í bígerð. 

Þriðja sería sjónvarpsþáttanna The Mandalorian fór í sýningu á Disney+ efnisveitunni í mars í fyrra en sú fyrsta var frumsýnd árið 2019. Þættirnir fjalla um ævintýri stríðsmannsins Din Djarin, eða Mando, og krúttsprengjunnar Grogu, sem netverjar kalla gjarnan Baby Yoda, þrátt fyrir að Yoda og Grogu séu tvær ólíkar persónur. 

Velgengni þáttanna hefur greinilega verið talsverð en persónurnar eru nú á leið í bíó. Í tilkynningu frá Disney kemur fram að framleiðsla á bíómyndinni hefjist á þessu ári og að Jon Favreau komi til með að leikstýra, en hann hefur leikstýrt öllum þremur seríunum af Mandalorian-þáttunum. Meðal leikara eru Pedro Pascal, Katee Sackhoff og Carl Weathers.

„Ég hef dýrkað að segja sögur úr hinum ríka heimi sem George Lucas skapaði. Tækifærið sem felst í að koma Mandalorian og Grogu, lærlingnum hans, á hvíta tjaldið er vægast sagt spennandi,“ sagði Favreau um verkefnið. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×