Innlent

„Á­lag sem við höfum ekki séð áður“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Jón Þór Stefánsson skrifa
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma og almennrar lyflækningadeildar, segir ástandið á Landspítalanum vera sögulega erfitt.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma og almennrar lyflækningadeildar, segir ástandið á Landspítalanum vera sögulega erfitt. Vísir/Vilhelm

Yfirlæknir á Landspítalanum segir álag á spítalanum aldrei hafa verið meira en nú. Hátt í níutíu sjúklingar liggi á göngum spítalans. Grímuskylda var tekin upp á spítalanum á ný í morgun og heimsóknir takmarkaðar.

Töluvert hefur verið um veikindi meðal landsmanna undanfarið og hefur starfsfólk Landspítalans fundið vel fyrir því. Már Kristjánsson yfirlæknir og framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðasviðs segir stöðuna á spítalanum aldrei hafa verið verri en nú.

„Eins og kunnugt er þá er mjög mikill faraldur af kvefveirum og öðru slíku, sem út af fyrir sig kannski ekki hættulegt eitt og sér, en þegar þú ert kominn í spítalaumhverfið þá er mikið af fólki sem stendur höllum fæti,“ segir Már. 

„Enda erum við að sjá gríðarlega aukningu hjá í aðkomutölum í innlögnum. Það hefur alveg keyrt um þverbak undanfarna daga, en hátíðirnar verið mjög erfiðar.“

Vegna þessa hafi verið tekin upp grímuskylda á Landspítalanum og heimsóknir takmarkaðar.

„Hér erum við með rétt tæplega þrjú hundruð bráðalegupláss á spítalanum, bæði á lyflækninga- og skurðlækningadeildum. Í gær vorum við með 88 sjúklinga liggjandi á göngum spítalans og þar að auki tæplega fimmtíu á göngum bráðamóttökunnar,“ segir Már. 

„Þetta er álag sem við höfum ekki séð áður á spítalanum, svo mér sé kunnugt um.“

Þá séu líka heilmikil veikindi meðal starfsfólks og það hafi líka áhrif á starfsemina. Már segir landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið hafa verið upplýst um stöðuna. Hluti af vandamálinu sé margumtalaður fráflæðisvandi spítalans eða það hversu erfitt sé að útskrifa sjúklinga sem þurfi önnur úrræði líkt og pláss á hjúkrunarheimilum.

„Það eru engir galdrar til. Við getum ekki lagað þetta með því að smella fingri. En við þurfum að auðkenna kringumstæðurnar þannig að þeir sem að sjá um stefnumótun og fara með eftirlit í heilbrigðisþjónustu sé ástandið ljóst. Þetta er ekki boðlegt eins og þetta er núna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×