Innlent

Ráð­gátan um ís­lenska ljóðið í kastalaþorpinu að skýrast

Kristján Már Unnarsson skrifar
Leturgerðarfræðingurinn Keith Adams við vinnu sína í Urueña árið 2008. Hann er þarna að rita nafnið Sophia á grísku á sama vegg og ljóð Bjarka Unnsteinssonar er ritað á.
Leturgerðarfræðingurinn Keith Adams við vinnu sína í Urueña árið 2008. Hann er þarna að rita nafnið Sophia á grísku á sama vegg og ljóð Bjarka Unnsteinssonar er ritað á. Amanda Adams

Ráðgátan um það hvernig ljóð á íslensku eftir óþekkt íslenskt skáld rataði á vegg í afskekktu kastalaþorpi á Norður-Spáni er tekin að skýrast. Staðfesting hefur fengist á því hver ritaði íslenska textann og hvaða ár það var gert. Enn vantar þó nokkur púsl í myndina.

Í fréttum Stöðvar 2 síðastliðinn föstudag og í ítarlegri útgáfu á Vísi á laugardag kom fram að fréttamaður hafði fyrir hreina tilviljun séð íslenskan texta á vegg í þorpinu Urueña, sem er um 45 mínútur frá borginni Valladolid. Eftirgrennslan leiddi í ljós að þetta er ljóð eftir Bjarka A. Unnsteinsson, sem birst hafði í Lesbók Morgunblaðsins haustið 1982 undir heitinu „Til minningar um Garcia Lorca“.

Íslenska ljóðið lesið á veggnum í Urueña. Þar er í stað bókstafsins „ð“ skrifað „dh“ og í stað „þ“ skrifað „th“. Þá er bókstafurinn „u“ táknaður með „v“, eins og tíðkaðist í upprunalega latneska stafrófinu.Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Málið var þeim mun einkennilegra fyrir þá sök að Bjarki var nær óþekktur sem ljóðskáld. Hann hafði aldrei gefið út ljóðabók og aldrei komið til Spánar, að því er systir hans, Hanna Unnsteinsdóttir, tjáði okkur. Ljóð eftir hann höfðu aðeins birst í Lesbók Morgunblaðsins og hafði Hanna enga hugmynd um hvernig ljóð hans rataði á vegginn á Spáni en Bjarki lést árið 2005, 57 ára gamall.

Æviágrip Bjarka A. Unnsteinssonar birtist með minningargrein í Morgunblaðinu 23. október 2005, sex vikum eftir andlát hans.

Fyrir utan það að vera umgirt fornum kastalavegg er Urueña þekktast fyrir fjölda bókabúða og kallað bókaþorpið. Í þessu 190 manna þorpi eru níu bóksalar, fleiri hlutfallslega en þekkist annarsstaðar á Spáni.

Séð yfir bókaþorpið Urueña.Bæjarráð Urueña.

Með leit á netinu tókst fréttamanni að finna ljósmynd sem sýndi mann vera að letra á húsvegg í Urueña. Þetta virtist vera sama hús og íslenska ljóðið er á en þó ekki sami veggur. Skrifarinn var sagður heita Keith Adams. Myndina tók Amanda Adams í mars árið 2008. Keith Adams er Englendingur, menntaður frá Oxford, og starfaði sem prófessor í leturfræði við hönnunar- og listaháskólann í Barcelona.

Myndin sem við fundum á netinu og kom okkur á sporið. Hún er af Keith Adams að skrifa skrautletur á þetta sama hús í Urueña.Amanda Adams

Ábending barst svo frá Íslendingi sem hafði séð fréttina á Vísi. Sá hafði gúgglað þetta á spænsku og fundið bloggsíðu sem tileinkuð er útbreiðslu norrænnar menningar á spænsku. Þar var ný færsla, birt 29. desember, eftir að fréttin hafði verið sýnd á Stöð 2. Þar var sagt að breski skrautritarinn Keith Adams, sem byggi í Barcelona, hefði ritað þetta íslenska ljóð Bjarka á vegginn árið 2008.

Við höfðum uppi á Keith Adams og spurðum hvort hann hefði ritað ljóðið á vegginn í Uruena. Og ef svo væri, hversvegna hann hefði valið þetta ljóð og hvort hann hefði þekkt Bjarka A. Unnsteinsson.

Í svari sem barst klukkustund síðar sagði Keith minni sitt vera orðið hræðilegt. Hann teldi þó ekki að hann hefði ritað eitthvað á íslensku í Urueña. Giskaði hann á að það hefði annaðhvort verið fyrrverandi nemandi sinn, Oriol Miró, eða Gunnlaugur Briem, og bætti við að hann héldi að Gunnlaugur byggi á Spáni.

Fréttamaður les íslenska ljóðið á veggnum í bókaþorpinu Urueña sumarið 2023.Ingunn Lára Kristjánsdóttir

Fimm klukkustundum síðar barst okkur annar póstur frá Keith Adams. Þar baðst hann afsökunar á að hafa ekki munað eftir því sem hann gerði fyrir fimmtán árum. Hann væri núna orðinn 69 ára gamall en hefði þá verið 54 ára. Eiginkona sín hefði fundið ljósmyndir sem sönnuðu óyggjandi að hann hefði ritað íslenska ljóðið á vegginn.

Keith Adams að skrifa á sama vegginn á húsinu í Uruena árið 2008. Þarna er plássið autt þar sem íslenska ljóðið er núna.Amanda og Keith Adams

Með póstinum sendi Keith okkur jafnframt nokkrar ljósmyndir, sem hann leyfði okkur að birta, og segir taka af allan vafa um að hann ritaði ljóðið á vegginn. Þar sæist lítið jarðarber, sem hann notaði gjarnan til að merkja verk sín, byggt á stíl sem tíðkaðist í Katalóníu á þrettándu öld. Einnig sæist upphafsstafur sinn K og ártalið með rómverskum stöfum MMVIII.

Jarðarberið sem Keith Adams notaði til að merkja verk sín var málað við íslenska ljóðið.Amanda og Keith Adams

Í þessu svari Keith Adams kom ekkert fram um hversvegna hann valdi þetta íslenska ljóð. Nafnið Gunnlaugur Briem vakti hins vegar forvitni okkar og við ákváðum að reyna að komast að því hver hann væri.

Við leit á netinu sáum við að Gunnlaugur SE Briem er einnig alþjóðlega þekkt nafn á sviði leturfræði og við hönnun á letri en hann er höfundur að Briem Script-fontinum. Upplýsingar bentu til þess að hann ætti tvö heimili og byggi bæði á Norður-Spáni og í Bandaríkjunum.

Við leit á timarit.is fundum við frétt í Morgunblaðinu frá árinu 1981 um að Gunnlaugur SE Briem hefði verið sæmdur doktorsnafnbót við Royal College of Art í London fyrir rannsóknir á letursögu. Fram kom að Gunnlaugur hefði lokið stúdentsprófi frá MR árið 1970.

Bjarki Unnsteinsson og Gunnlaugur Briem voru saman í 6. bekk D í MR, sem útskrifaðist árið 1970.MBL/timarit.is

Um leið rifjaðist upp að í minningargrein um Bjarka A. Unnsteinsson kom fram að hann var einnig stúdent frá MR árið 1970. Við nánari leit fundum við út að í sama útskriftarbekk í MR 1970, 6. bekk D, voru nöfnin Bjarki Unnsteinsson og Gunnlaugur Briem. Í hópi bekkjarbræðra sáum við einnig nafnið Davíð Oddsson og raunar fleiri þjóðkunn nöfn.

Við fundum netfang Gunnlaugs SE Briem og sendum á hann fyrirspurn um hvort verið gæti að hann hefði átt þátt í því að kvæði eftir Bjarka Unnsteinsson væri á vegg í Urueña á Spáni.

Einnig sendum við nýjan póst á Keith Adams þar sem við sögðumst hafa komist að því að Bjarki Unnsteinsson og Gunnlaugur Briem hefðu verið bekkjarbræður í menntaskóla. Við sögðum Keith að það væri freistandi að álykta að kynni hans af Íslendingnum Gunnlaugi Briem hafi átt þátt í því að hann valdi að skrifa íslenska ljóðið á vegginn.

Tvö ljóð eftir Bjarka A. Unnsteinsson birtust í Lesbók Morgunblaðsins þann 11. september árið 1982.MBL/timarit.is

Jafnframt bentum við á að Bjarki hefði látist árið 2005. Ljóðið hefði verið málað á vegginn árið 2008 og við spurðum því Keith: Gæti þetta hafa verið ósk Gunnlaugs Briem að minnast bekkjarbróður síns Bjarka með þessum hætti?

Næst barst okkur skriflegt svar frá Gunnlaugi SE Briem. Það var stutt: „Ekki ég“.

Síðan barst svar frá Keith Adams:

„Nei, ég held núna að Herra Briem hafi ekki átt hlut að máli. Ég held að hann hafi ekki átt neinn þátt í þessu. Mér finnst líklegast að ég hafi lesið tímarit eða bók þegar ég var að vinna þarna og fann texta um Bjarka Unnsteinsson, líkaði við ljóðið og skrifaði það.

Mér var frjálst að gera hvað sem mér líkaði. Ég bætti skáldinu þínu við útdrætti úr Kíkóta, García Márquez, Jorge Guillén, Jorge Luís Borges. Skrifaði einnig nokkur mótmælaljóð sem smyglað var út úr Guantánamo,“ segir í svarpósti Keith Adams, sem sjálfur kveðst aldrei hafa komið til Íslands.

Keith getur varla hafa séð ljóð Bjarka í bók því eftir því sem næst verður komist hafði það aðeins birst í Lesbók Morgunblaðsins árið 1982. Eftir standa spurningar: Hvernig gat Breti á Spáni hafa séð ljóð í Lesbók Morgunblaðsins? Hver benti honum á ljóðið? Og hver þýddi það úr íslensku fyrir hann?

Á þessari mynd sést jarðarberið sem Keith Adams notaði til að merkja verk sín. Ofar sést í ljóð Bjarka Unnsteinssonar á íslensku. Í smærra letri fyrir neðan er ljóðið og heiti þess þýtt yfir á spænsku. Þar er jafnframt skrifað: Ólafur M. Jóhannesson - Islandia - 1985 - Sjö skáld í myndum - Poema de Bjarki A. Vnnsteinsson.Amanda og Keith Adams

En til að flækja málið enn frekar sést á ljósmynd, sem Keith sendi okkur, smærra letur á veggnum neðan við ljóð Bjarka. Þar er íslenska ljóðið og heiti þess þýtt yfir á spænsku en jafnframt skrifað: Ólafur M. Jóhannesson - Islandia - 1985 - Sjö skáld í myndum - Poema de Bjarki A. Vnnsteinsson.

Ljóðabókin Sjö skáld í mynd, sem Ólafur M. Jóhannesson myndskreytti.

Við höfðum því samband við Ólaf M. Jóhannesson. Hann myndskreytti og hafði umsjón með útgáfu ljóðabókarinnar Sjö skáld í mynd, sem kom út hjá Svart á hvítu árið 1983.

Ólafur kvaðst orðlaus að sjá nafn sitt á veggnum í Uruena. Tengingin væri enn furðulegri enda væri ekkert ljóð eftir Bjarka Unnsteinsson í þeirri bók. Þar væru ljóð eftir Gunnar Dal, Jóhann Hjálmarsson, Steinunni Sigurðardóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Jón úr Vör, Matthías Johannessen og Snorra Hjartarson en ekkert eftir Bjarka Unnsteinsson.

Þá vekur athygli að útgáfuár og heiti ljóðabókarinnar er ekki ritað rétt á veggnum. Í stað „Sjö skáld í mynd“ er skrifað „myndum“ í fleirtölu. Það bendir til að Íslendingur, eða einhver gjörkunnugur íslenskri beygingarfræði, hafi komið þar nærri. En hver?

Hér má sjá upphaflegu frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Ráðgáta um íslenskt ljóð í kastalaþorpi á Norður-Spáni

Íslenskan telst eitt fámennasta og minnst útbreidda tungumál jarðarbúa. Fréttamaður Stöðvar 2 varð því ekki lítið hissa þegar hann fyrir hreina tilviljun sá ljóð á íslenskri tungu letrað á steinvegg í afskekktu kastalaþorpi á Norður-Spáni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×