Innlent

Altjón við Víkurbraut þar sem boltar renna eftir gólfinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má eru skemmdirnar á húsinu við Víkurbraut 40 miklar.
Eins og sjá má eru skemmdirnar á húsinu við Víkurbraut 40 miklar. Sigurður Óli

Sigurður Óli Þórleifsson íbúi í Grindavík sýndi fréttamönnum TV2 í Noregi stöðuna á húsinu sínu við Víkurbraut í Grindavík á dögunum. Gólfið hallar svo mikið að boltar rúlla eftir því. Um er að ræða altjón samkvæmt Náttúruhamfaratryggingum Íslands.

Erlendir fjölmiðlar héldu margir hverjir til Íslands þegar fór að gjósa við Sundhnúksgíga á mánudagskvöld. Fulltrúar TV2 í Noregi voru meðal þeirra sem komu og fylgdu Sigurði Óla og sonum hans til að skoða afleiðingar jarðskjálftanna í nóvember þegar bærinn var rýmdur.

Í myndbandinu að neðan má sjá Sigurð Óla lóðsa norska sjónvarpsfólkið um húsið sitt. Sjá má löngu sprunguna í Grindavík sem teygir sig undir húsið hans og hefur valdið miklum skemmdum. Veggur í garðinum er brotinn, sprungur sjást víða og húsið hreinlega hallar.

Sigurður Óli og synir hans sýna norska fréttafólkinu hvernig gólfið hallar. Boltar eru settir á gólfið sem rúlla af stað undan hallanum.

Sigurður Óli segist á Facebook hafa fengið staðfest hjá Náttúruhamfaratryggingu að hús fjölskyldunnar að Víkurbraut 40 væri altjón. 

„Það var fátt um svör hjá NTÍ, vísa á Grindavíkurbæ. Ekkert hægt að gera, né bæta tjón fyrr en afstaða Grindavíkurbæjar liggur fyrir. Það er hvort eigi að byggja á sprungunni á ný. Þar til, þurfum við að greiða af lífeyrissjóðsláni, fasteignagjöld, hita og rafmagn ofl. Af handónýtu húsi, og þetta á við um húsin í nágrenninu líka. Nú spyr ég Grindavíkurbæ, hvenær mun þetta liggja fyrir? og mun Grindavíkurbær taka að sér þennan kostnað? Ég veit að ég skrifa fyrir hönd nokkurra íbúa. Ég á ekki von á að bæjarfulltrúar svari þessu, enda eru þeir hálfósýnilegir,“ segir Sigurður Óli á Facebook.

Hann nefnir þó sérstaklega að margir séu í mun verri stöðu en fjölskylda hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×