Innlent

Af­létta ó­vissu­stigi fyrir norðan en bíða með Vest­firðina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikið hefur snjóað á Vestfjörðum, til að mynda á Flateyri. Myndin er úr safni.
Mikið hefur snjóað á Vestfjörðum, til að mynda á Flateyri. Myndin er úr safni. Vísir/Arnar

Tekin hefur verið ákvörðun um að aflétta óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Óvissa í veðurspám fyrir annað kvöld gæti þó sett strik í reikninginn. Áfram er óvissustig á Vestfjörðum. 

Ákvörðun um að aflétta óvissustigi á Norðurlandi var tekin að loknum fundi sérfræðinga Veðurstofunnar með almannavörnum og lögreglu. Veður er skaplegt og gott og því þótti ekki ástæða til að viðhalda óvissustiginu.

„Það má samt taka fram að það er mikil óvissa í veðurspám fyrir annað kvöld, þannig að mögulega gæti það leitt til annars óvissustigs. Við verðum bara að leyfa veðurspánum að þróast og sjá hvernig það gengur eftir,“ segir Minney Sigurðardóttir, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni.

Á Vestfjörðum er umtalsvert meiri óvissa í veðurkortunum.

„Það hefur verið ákveðið með almannavörnum og lögreglustjóra á Vestfjörðum að viðhalda óvissustigi og sjá hvernig spárnar þróast. Þótt það sé mjög skaplegt og got veður í dag þá gæti það versnað til muna í nótt og á morgun.“

Mögulega muni veðurspár skýrast eftir því sem líður á daginn. Veðurstofa og almannavarnir muni bregðast við í samræmi við það. 

Víða ófært 

Þrátt fyrir afléttingu óvissustigs á Norðurlandi sé alltaf mikilvægt að fara varlega.

„Að fólk sem er að ferðast til fjalla og skella sér á skíði fari varlega og meti aðstæður. Það getur verið veikleiki í snjóþekjunni og snjóflóð af mannavöldum geta orðið,“ sagði Minney.

Enn eru margir vegir ófærir víða á Vestfjörðum. Flestir vegir við Ísafjarðardjúp eru ófærir vegna snjóa. Unnið er að mokstri á einhverjum þeirra, en stór hluti Djúpsvegar verður ekki fær í allan dag, eftir því sem fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þá er ófært um þónokkra vegi á Norðurlandi. Á þeim vegum sem opnir eru er þá víða mikil hálka. Nánari upplýsingar um það má finna á vef Vegagerðarinnar, Umferðin.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×