Fótbolti

Annar skandall í Tyrk­landi: For­setinn dró liðið af velli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ecmel Faik Sarialioglu tók leikmenn Istanbulspor af velli í mótmælaskyni í leiknum gegn Trabzonspor í gær.
Ecmel Faik Sarialioglu tók leikmenn Istanbulspor af velli í mótmælaskyni í leiknum gegn Trabzonspor í gær. getty/Kadir Kemal Behar

Í annað sinn á skömmum tíma fór forseti liðs inn á völlinn í leik í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Fyrr í mánuðinum fór forseti Ankaragucu, Faruk Koca, inn á völlinn eftir jafntefli við Caykur Rizespor og kýldi dómarann Halil Umut Meler.

Koca var handtekinn og öllum leikjum í tyrknesku úrvalsdeildinni frestað vegna atviksins. Keppni í henni hófst að nýju í gær en annar forseti liðs stal þá fyrirsögnunum.

Botnlið Istanbulspor tók á móti Trabzonspor í gær. Gestirnir komust í 1-2 á 68. mínútu þegar Paul Onuachu skoraði. Heimamenn voru afar ósáttir og töldu sig hafa átt að fá vítaspyrnu skömmu áður.

Ecmel Faik Sarialioglu, forseti Istanbulspor, gerði sér í kjölfarið ferð niður á völlinn og tók leikmenn liðsins út af í mótmælaskyni. Nokkrir leikmenn Istanbulspor reyndu að telja Sarialioglu hughvarf og Fílbeinsstrendingurinn Simon Deli kraup meira að segja fyrir framan forsetann.

Honum var samt ekki haggað og leiknum var hætt. Óvíst er hvað gerist í framhaldinu en Sarialioglu fær væntanlega þunga refsingu.

„Þetta er sorgardagur fyrir fótboltann. Við bíðum eftir ákvörðun knattspyrnusambandsins,“ sagði þjálfari Trabzonspor, Abdullah Avci, eftir leikinn.

Trabzonspor er í 4. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar en Istanbulspor á botninum eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×