Innlent

Svipuð kvika en mögu­lega þróaðri

Samúel Karl Ólason og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Helga Kristín Torfadóttir eldfjallafræðingur, með nýjasta hluta Íslands.
Helga Kristín Torfadóttir eldfjallafræðingur, með nýjasta hluta Íslands. Vísir/Berghildur

Helga Kristín Torfadóttir eldfjallafræðingur, er komin með sýni úr glænýju hrauninu á Reykjanesi. Hún er ein fræðinga frá Háskóla Íslands sem freistuðu þess að finna sýni úr kvikunni í dag, hvort sem það var fljótandi eða ekki.

Í samtali við fréttamann segir Helga að hraunið sé aðeins kaldara en úr hinum eldgosunum á Reykjanesi undanfarin ár. Basaltið sé svipað en frumstæðustu steindirnar sem sáust í hinum gosunum virðast ekki vera í þessari kviku.

Það gefi til kynna að eldstöðin sé þróaðri en hinar. Það verði þó að koma betur í ljós eftir efnagreiningu.

Það þýðir að kvikan hafi mögulega staldrað aðeins við í skorpunni, eða kvikuganginum, og sé ekki að koma beint til yfirborðsins úr iðrum jarðar.

Sjá einnig: Eld­fjalla­fræðingar freista þess að ná sýnum úr eld­gosinu

Helga segir stóra hrauntjörn hafa myndast austan við gígaröðina. Það stefni til austurs og norðaustur.

„Það er búið að slökkva í mörgum strókum en það eru margir að gefa í núna, þannig að þetta er sitt á hvað. Það er spurning hvernig þetta þróast,“ segir Helga. Hún segir þessa gígaröð við hlið Sundgígahnjúka, austan við þá.

Helst séu þrjú svæði á sprungunni sem opnaðist í gærkvöldi enn virk. Ekki hafi orðið mikil breyting frá því hádeginu, að öðru leyti en að svo virðist sem meira flæði sé úr strókunum.

Gasmælarnir fóru ekki í gang á meðan vísindamennirnir voru við störf en vindáttin er mjög hagstæð í dag.


Tengdar fréttir

Segir mikilvægt að Grindvíkingar fái andrými

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Grindvíkingur segir mikilvægt að stuðningur stjórnvalda við Grindvíkinga haldi áfram þrátt fyrir að styttist vonandi í að þeir geti farið að fara heim.

Gosið hafi lítil áhrif á björgunarsveitir í bili

Eldgosið við Sundhnúksgíga hefur lítil áhrif á störf björgunarsveita á landinu enn sem komið er. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir tímann þurfa að leiða í ljós hvort ræsa þurfi út sveitir alls staðar að til þess að gæta galvaskra göngumanna.

Myndasyrpa: Rauðglóandi næturhiminn og myndun nýrra gíga

Eldgosinu, sem hófst við Sundhnúksgíga seint í gærkvöldi, er ekki hægt að lýsa öðruvísi en stórfenglegu. Fjöldi fólks lagði leið sína í átt að eldgosinu til að berja það augum og næturhimininn var rauður vegna endurvarpsins frá eldinum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×