Fótbolti

MLS berst gegn töfum með ný­stár­legum hætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er eins gott fyrir Lionel Messi og leikmenn MLS deildarinnar að drífa sig út af vellinum í skiptingum.
Það er eins gott fyrir Lionel Messi og leikmenn MLS deildarinnar að drífa sig út af vellinum í skiptingum. Getty/Peter Joneleit

MLS-deildin í Bandaríkjunum mun berjast gegn leiktöfum með nýstárlegum hætti því deildin ætlar að taka upp „skotklukku“ í leikjum sínum en ekki þó til að telja niður í næsta skot.

Forráðamenn MLS ætla að berjast gegn töfum leikmanna með því að setja tímamörk á bæði skiptingar og hversu lengi menn liggja meiddir í jörðinni.

Nýju reglurnar voru samþykktar á eigendafundi deildarinnar.

Á 2024 tímabilinu mega leikmenn ekki liggja lengur en fimmtán sekúndur í jörðinni ef þeir meiðast því annars þurfa þeir af velli í að minnsta kosti tvær mínútur. Þetta gildir þó ekki ef mótherjinn hefur fengið gult eða rautt spjald fyrir brotið.

Leikmönnum sem er skipt út af vellinum fá einnig aðeins tíu sekúndur til að yfirgefa völlinn og sérstök „skotklukka“ mun taka tímann á því. Fari þeir fram yfir tímann þá má lið þeirra ekki setja inn á varamann strax.

Liðið þarf þá að bíða í minnsta kosti eina mínútu og leikmaðurinn fær ekki að koma inn á völlinn fyrr en að leikurinn stoppar næst eftir að þessi mínúta er liðin.

Þessar reglur voru reyndar í MLS Next Pro deildinni sem er þróunardeild MLS deildarinnar. Með þeim tókst að minnka uppbótartímann að meðaltali úr sex mínútum niður í 1,22 mínútur.

Skiptingarnar gengu líka mun hraðar en aðeins tíu varamenn brutu fyrrnefnda tíu sekúndna reglu. Það er ljóst að þær höfðu mjög góð áhrif í baráttunni við óþarfa tafir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×