Fótbolti

Erdogan búinn að tjá sig um hnefahöggið á fótboltavellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halil Umut Meler er einn virtasti dómari Tyrkja og dæmir í Meistaradeildinni. Hér sést Faruk Koca, forseti Ankaragucu, slá hann niður í gær.
Halil Umut Meler er einn virtasti dómari Tyrkja og dæmir í Meistaradeildinni. Hér sést Faruk Koca, forseti Ankaragucu, slá hann niður í gær. Getty/ Emin Sansar

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, er meðal þeirra sem hafa komið fram opinberlega og fordæmt árás forseta fótboltaliðs á dómara eftir leik í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Eftir að mótherjarnir jöfnuðu metin rétt fyrir leikslok þá strunsaði eigandi Ankaragucu liðsins niður á völlinn, ruddist að dómaranum og sló hann niður í grasið með vænu hnefahöggi.

„Ég fordæmi árásina á Halil Umut Meler dómara eftir leik MKE Ankaragucu og Çaykur Rizespor, Ég óska honum skjótum bata,“ sagði Erdogan.

„Íþróttir standa fyrir frið og bræðralag. Íþróttir eiga ekkert sameiginlegt með ofbeldi. Við munum aldrei leyfa ofbeldi í tyrkneskum íþróttum,“ sagði Erdogan.

Fleiri hafa fordæmt atvikið og Ankaragucu, félag ofbeldisfulla eigandans, baðst afsökunar.

„Við erum leið yfir því sem gerðist í kvöld. Við biðjum tyrknesku fótboltafjölskylduna afsökunar sem og allt tyrkneska íþróttsamfélagið vegna atviksins eftir Caykur Rizespor leikinn á Eryaman leikvanginum,“ sagði í yfirlýsingu félagsins.

Öllum fótboltaleikjum í Tyrklandi hefur frestað um óákveðinn tíma og þá á Ankaragucu og forseti þess von á hörðum refsingum.

Það má sjá atvikið hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×