Innlent

„Það er brjál­semi að halda þessu fram“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sólveig Anna sagði heimildir Stefáns Einars vera rógburð.
Sólveig Anna sagði heimildir Stefáns Einars vera rógburð. Vísir

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það ekki rétt að hún hafi komið sér upp sérstakri skrifstofuaðstöðu í húsakynnum Eflingar sem annað starfsfólk hafi ekki haft aðgang að. Hún segir um að ræða lygar og rógburð.

Þetta kom fram í þjóðmálaþættinum Spursmálum, sem stýrt er af Stefáni Einari Stefánssyni. Stefán sagðist hafa heimildir fyrir því að Sólveig Anna og félagar hefðu komið sér upp sérstakri skrifstofuaðstöðu í Guðrúnartúni þar sem öðru starfsfólki hafi verið meinaður aðgangur.

Ítrekaði spurninguna

„Nei, guð minn góður. Það er brjálsemi að halda þessu fram og því miður er það svo,“ sagði Sólveig Anna sem komst ekki lengra því Stefán Einar greip frammí fyrir henni og spurði hana aftur hvort þetta væri ekki rétt.

„Að sjálfsögðu ekki. Guð minn góður. Hverskonar bull er þetta eiginlega? Og það er ótrúlegt að ég þurfi á þessum tímapunkti ennþá að vera að reyna að hrekja...“ sagði Sólveig Anna en aftur greip Stefán Einar frammí fyrir henni.

„Við viljum fá svör við þessum spurningum sem eðlilegt er,“ sagði Stefán Einar. Það stóð ekki á svörum.

„Já, ég er að svara þessu og þetta er alrangt. Efling bara svo ég fari þá að útskýra þetta, eins leiðinlegt og fáránlegt og það hlýtur nú að vera fyrir þá sem eru að horfa á þetta sem vilja væntanlega frekar fjalla um kjaramálin og svo framvegis, þá er það svo að Efling á næstum því 50 prósent í Guðrúnartúninu, sem stundum hefur verið kallað skrifstofuvirkið.“

Lygar og rógburður

Skaut Stefán Einar því þá að að þetta væri stór og glæsileg bygging. Sólveig Anna segir starfsemi Eflingar fara fram á þriðju hæðinni og á fjórðu hæðinni.

„Þetta eru hæðir sem við nýtum, gerðum þá og gerum nú. Að einhver hafi verið að reyna að loka sig af er brjálsemi að halda fram, rangt, lygar og rógburður.“

Svaraði Stefán Einar því þá að orð Sólveigar væru um það fólk og að hann ætlaði sér ekki að leggja mat á þau. Svaraði Sólveig Anna þá að nýju. „Það eru orð um það að ég hafi reynt að loka mig af í einhverju aðskildu rými, já.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×