Innlent

Máttu ekki nota öku­rita til að sjá hvað há­degis­hléið væri langt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Íslandspóstur mátti ekki nýta sér upplýsingarnar úr ökuritanum.
Íslandspóstur mátti ekki nýta sér upplýsingarnar úr ökuritanum. Vísir/Vilhelm

Íslandspóstur mátti ekki nota upplýsingar úr ökurita í bifreið sem starfsmaður hafði afnot af sem uppsagnarástæðu. Notkun Íslandspósts á upplýsingunum var hvorki gagnsæ né sanngjörn samkvæmt úrskurði Persónuverndar. 

Póstmannafélag Íslands (PFÍ) sendi kvörtun fyrir hönd starfsmannsins til Persónuverndar eftir að honum hafði verið tjáð að notast hafi verið við gögn úr ökurita ökutækis sem hann hafði til afnota við störf hjá fyrirtækinu. Var starfsmanninum tjáð að ökuritinn væri í bílnum til þess að fylgjast með ökuhæfni starfsmanna. 

Sannreyndu afköst hans með upplýsingum úr ökurita

„Vísar PFÍ til þess að Íslandspóstur hafi farið yfir gögn úr ökurita bifreiðar sem kvartandi hafði afnot af langt aftur í tímann í þeim tilgangi að sannreyna starfsafköst hans og hversu löng matarhlé hann hefði tekið,“ segir í kvörtuninni. „Telur PFÍ það ekki rúmast innan tilgangs vinnslunnar að nota ökuritana til að vakta það hvort og hvenær starfsmaður hafi ákveðið að taka hádegishlé og nota þær upplýsingar sem rökstuðning fyrir uppsögn hans úr starfi.“

Íslandspóstur svaraði Persónuvernd og sögðust forsvarsmenn þar hafa heimild til vinnslu persónuupplýsinga þar sem bílstjórinn hafi gefið samþykki fyrir því. Honum hafi verið gerð grein fyrir rafrænni vöktun og hann fengið fræðsluefni. 

Samræmist ekki reglum

„Einnig hafi kvartandi mátt vera meðvitaður um að starfsafköst hans kynnu að vera skoðuð með aðstoð ökuritans, sérstaklega í ljósi þess að kvartanir hefðu borist fyrirtækinu í aðdraganda uppsagnar vegna afkasta hans í starfi, þar sem honum hafi verið kunnugt um að ökuritinn gerði vaktstjórum útkeyrsludeildar kleift að fylgjast með staðsetningu og ferðum bílaflotans á skjá í stjórnstöð,“ segir í svari Íslandspósts. 

Persónuvernd mat það sem svo að notkun Íslandspósts á persónuupplýsingum úr ökuritanum hafi ekki samræmst ákvæðum reglna um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga. Ekkert í fræðsluefninu sem sent var til starfsmanna hafi segi til um að gögn úr ökuritanum gætu verið notuð til þess að kanna hvort þeir uppfylli starfsskyldur sínar og í framhaldinu sem rökstuðningur fyrir uppsögn þeirra úr starfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×