Lífið

Ragnar ræddi boltann við bresku stjörnurnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það fór vel á með þeim Helenu Bonham Carter og Ragnari Jónassyni.
Það fór vel á með þeim Helenu Bonham Carter og Ragnari Jónassyni. Instagram

Árlegt jólaboð London bókasafnsins fór fram í gærkvöldi. Helena Bonham Carter, leikkona og forseti bókasafnsins, hélt teitið og þar var Ragnar Jónasson, rithöfundur, meðal gesta og hitti hann ýmsar breskar stórstjörnur.

Ragnar birti myndir úr boðinu á Instagram síðunni sinni í gærkvöldi. Þar birti hann myndir af sér með breskum stórleikurum líkt og Daniel Radcliffe, Bill Nighty og Rupert Graves.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt og mjög hátíðlegt,“ segir Ragnar í samtali við Vísi. Hann segist vera mikill aðdáandi bresku leikaranna.

Ragnar segist vera mikill aðdáandi þeirra Bill Nighy og Rupert Graves.

Teitið fór fram í húsakynnum bókasafnsins á St. James torgi í miðborg London. Um er að ræða annað jólaboðið sem Helena Bonham Carter heldur en hún varð fyrsti kvenkyns forseti bókasafnins í nóvember í fyrra. Bókasafnið er 181 árs gamalt og var breski rithöfundurinn Charles Dickens meðal stofnenda.

„Það var rosalega gaman að spjalla við þau. Við náðum að spjalla um fótbolta og Ísland. Það virtist annar hver maður þarna þekkja einhvern Íslending,“ segir Ragnar léttur í bragði.

Hann kveðst vera í London í fríi en eins og alkunna er, er Ragnar einn af þekktustu glæpasagnahöfundum landsins á alþjóðavettvangi. Þannig hefur Ragnar selt hundruð þúsunda eintaka af bókum sínum víða, til að mynda í Frakklandi og þá var bók hans Þorpið valið ein af fimm bestu glæpasögum ársins í Bretlandi í hitt í fyrra.

Húsakynni bókasafnsins eru einkar glæsileg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×