Þessum og fleiri spurningum um ADHD verður velt upp í Pallborðinu í dag, sem sýnt verður í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 13:10 í dag.
Gestir Pallborðsins verða Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, Pétur Maack, formaður Sálfræðingafélags Íslands, og Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.
Samkvæmt Landlæknisembættinu hefur notkun ADHD lyfja aukist mikið síðasta áratug. Aukningin nam 12,3 prósentum árið 2022 samanborið við 2021, sem er minni aukning en árin á undan.
Notkunin nam 57 skilgreindum dagskömmtum á hverja 1.000 íbúa.
Um 67 prósent lyfjanna innihalda metýlfenidat en hlutfall lisdexamfetamíns-lyfja hefur farið ört vaxandi frá því það kom á markað árið 2017 og nemur nú 28 prósentum af heildarmagni afgreiddra lyfja.
Lyfið Elvanse hefur verið ófáanlegt undanfarið og þá hefur komið til tals hvort því sé of oft ávísað sem fyrsta lyfi til einstaklinga með ADHD. Umræðan um mögulegar ofgreiningar lifir einnig góðu lífi.
Þetta og fleira í Pallborðinu klukkan 13 í dag.