Innlent

For­sætis­ráð­herra segir risaverkefni að leysa bráðavanda Grind­víkinga

Heimir Már Pétursson skrifar
Dæmi um skemmdir við húsnæði í Grindavík. Myndin var tekin í bænum fyrir hádegi í dag.
Dæmi um skemmdir við húsnæði í Grindavík. Myndin var tekin í bænum fyrir hádegi í dag. Vísir/EinarÁRna

Forsætisráðherra segir húsnæðismál Grindvíkinga verða tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun en það væri risaverkefni að leysa úr húsnæðisþörf þeirra næstu mánuðina. Útspil bankanna í gær um að fella tímabundið niður vexti og verðbætur dragi vonandi úr áhyggjum og kvíða Grindvíkinga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld hafa átt í miklum viðræðum við bankana undanfarna daga til að samræma aðgerðir fyrir íbúa Grindavíkur.

„Við áttum fund með þeim í gær í ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég held að það skipti miklu að þau hafa nú lýst því yfir að þau felli niður vexti og verðbætur í þrjá mánuði. Það dregur vonandi úr áhyggjum Grindvíkinga sem eiga við mikla óvissu að stríða. Þannig að ég held að þetta sé mjög jákvætt skref,“ segir Katrín.

Katrín Jakobsdóttir vonar að hægt verði að greina frá aðgerðum vegna húsnæðismála Grindvíkinga til næstu mánaða að loknum ríkisstjórnarfundi á morgun.Stöð 2/Ívar Fannar

Hún og ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að bankarnir væru hluti af heildarlausn í þessu verkefni. Ríkisstjórnin hafi notað þessa viku til að skoða húsnæðismálin og hvernig hægt væri að styðja Grindvíkinga í þeim efnum.

„Það er auðvitað áfram mikil óvissa um veturinn fyrir Grindvíkinga. Þótt þeim sé nú hleypt inn á svæðið í dag og það teljist hafa lítillega dregið úr hættu á svæðinu á eldgosi,“ segir forsætisráðherra. Unnið væri að því að finna Grindvíkingum húsnæði til næstu mánaða.

Forsætisráðherra segir risaverkefni að leysa úr húsnæðismálum Grindvíkinga til næstu mánaða. Þau mál verði rædd á ríkisstjórnarfundi á morgun.Vísir/RAX

„Sem er auðvitað risaverkefni á þessum tímum. Þannig að ég vænti þess að við verðum að ræða þau mál á ríkisstjórnarfundi á morgun.“

Heldur þú að það verði einhver niðurstaða á þeim fundi?

„Ég auðvitað vonast til þess. Við erum að reyna að vinna þetta mjög hratt, eins hratt og hægt er. Þannig að það sé einhver vissa fram undan næstu mánuði fyrir Grindvíkinga,“ segir Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir

Vextir og verðbætur í Grindavík falla niður í þrjá mánuði

Vegna náttúruhamfara og óvissuástands í Grindavík hafa Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), gert samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði. Samkomulag þessa efnis var undirritað í dag, 22. nóvember.

Mikil eyðilegging á nokkrum stöðum en víða minniháttar skemmdir

Sprungan sem liggur gegnum Grindavík hefur valdið margvíslegum skemmdum í bænum. Fjölmiðlar fengu í fyrsta skipti frá því í síðustu viku að fara inn á svæðið í dag. Spænskur blaðamaður segir samlanda sína fylgjast vel með uppbyggingu varnargarða í Svartsengi eftir að eldgos varð við borgina La Palma. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×