Innlent

Gríðar­legar skemmdir: „Það eru engin orð sem geta lýst þessu“

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Birna Óladóttir og skemmdirnar á heimili hennar á hjúkrunarheimilinu í Grindavík.
Birna Óladóttir og skemmdirnar á heimili hennar á hjúkrunarheimilinu í Grindavík. Vísir/Vilhelm

„Þetta er náttúrulega alveg hræðilegt. Það eru engin orð sem geta lýst þessu,“ segir Birna Óladóttir íbúi á hjúkrunarheimilinu í Grindavík. Gríðarlegar skemmdir eru á hjúkrunarheimilinu eftir skjálftana síðdegis og í kvöld.

Einar Dagbjartsson, sonur Birnu, var mættur til að sækja móður sínar. Margrét Björk Jónsdóttir ræddi við mæðginin og skjálfti reið yfir um leið og viðtalið hófst.

„Fékkstu að finna núna einn? Þeir hafa komið mikið stærri en þetta,“ sagði Birna við Margréti Björk.

Einar segir að sér líði ágætlega en þetta séu vissulega óþægindi.

„Ég var á sjó í dag, þokkalegt veður, en endaði í smá brælu. Þetta er miklu verra.“

Þau mæðgin eru á leiðinni í sveitina og ætla að dvelja í húsi Einars þar og slaka á.

„Maður er skíthræddur,“ sagði Einar og Birna rifjaði upp samtal við eitt barna barna sinna. Þá hafði Birna velt upp möguleikanum að gosið kæmi upp undir fótunum á henni.

„Það tekur örugglega mjög fljótt af,“ hafði Birna eftir barnabarni sínu.

Í klippunni má sjá miklar skemmdir í íbúðinni. Rifinn dúk, klofinn vegg og ýmsa brotna muni.

„Það er bara að enginn meiðist í þessu,“ sagði Birna og þá héldu þau mæðgin af stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×