Innlent

Vilja lækka gjöld á bensín en hækka á dísil

Samúel Karl Ólason skrifar
Áætlað er að bensínlítrinn lækki um tvær krónur og dísill hækki um sjö.
Áætlað er að bensínlítrinn lækki um tvær krónur og dísill hækki um sjö. Vísir/vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst leggja fram frumvarp um að hækka kolefnisgjald á eldsneyti og lækka bensíngjald. Breytingin snýr að því að hækka gjöld á dísil en lækka á bensín.

Kallað var eftir umsögnum um þessar ætlanir á Samráðsgáttinni á föstudaginn. Í meðfylgjandi gögnum kemur fram að hækkunin á kolefnisgjaldi sé hluti af fyrirhuguðum kerfisbreytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Meginmarkmiðið sé að endurheimta tekjur af þeim skattstofnum en áformin eiga að vera hlutlaus gagnvart heimilunum og verðbólgu.

Það er vegna þess að lækka á bensíngjald til móts við hækkun kolefnisgjalds.

„Heildarbreytingin er því til hækkunar á dísil en lækkunar á bensíni,“ segir í skjölum sem fylgja umsagnabeiðninni.

Samkvæmt þessum ætlunum á kolefnisgjald að hækka um um það bil fimm krónur á lítra en það fer eftir kolefnisinnihaldi eldsneytistegunda. Við það eiga tekjur ríkisstjóðs að hækka um 3,1 milljarða króna.

Bensíngjald á að lækka um sex krónur á lítra, sem myndi fela í sér tekjulækkun fyrir ríkissjóð upp á 0,6 milljarða. Breytingarnar myndu taka gildi í upphaf næsta árs.

Skrifstofa skattamála telur metur það svo að breytingarnar muni engin áhrif hafa á vísitölu neysluverðs og að verð á lítra af dísil myndi hækka um sjö krónur og bensínverð myndi lækka um tvær.

Styður markmið í loftlagsmálum

„Markmið breytinganna er að styðja við metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftlagsmálum og auka tekjuöflun ríkissjóðs í ljósi samdráttar á tekjum af skattlagningu ökutækja og eldsneytis,“ segir á Samráðsgáttinni.

Þar segir að hækkun kolefnisgjalds sé skilvirk leið til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og dregur hún einnig úr líkum á að innflytjendur eldsneytis til Íslands þurfi að kaupa loftslagsheimildir í nýju evrópsku viðskiptakerfi með losunarheimildir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×