Innlent

Lofar for­eldrum aftur­virkum greiðslum

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri og formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri og formaður borgarráðs Reykjavíkur. Vísir/Ívar Fannar

Niðurgreiðslur til foreldra barna, átján mánaða og eldri, sem eru hjá dagforeldrum verða afturvirkar til dagsins sem tillögur þess efnis voru samþykktar, að sögn formanns borgarráðs Reykjavíkur. Hann segir foreldra ekki þurfa að líða fyrir seinagang borgarinnar

Í kvöldfréttum okkar í gær greindum við frá því að niðurgreiðslur til foreldra barna, átján mánaða og eldri, sem vistuð eru hjá dagforeldrum hafi ekki enn komið til framkvæmda þrátt fyrir að hafa verið samþykktar í sumar. 

Foreldrar vöktu athygli á málinu á Facebook og gagnrýndu meðal annars óljós svör borgarinnar vegna málsins. Niðurgreiðslurnar sem búið var að samþykkja áttu að vera í samræmi við leikskólagjöld. Formaður borgarráðs Reykjavíkur segir foreldra allra barna, átján mánaða og eldri, eiga að sitja við sama borð.

„Þetta er gríðarlega mikilvæg aðgerð fyrir þennan hóp barna sem hefur beðið lengst eftir leikskólaplássi og munar tugum þúsunda fyrir þau heimili. Ég sé ekki annað fyrir mér en að þessar greiðslur verði einfaldlega aftuvirkar til þess dags sem að borgarráð samþykkti þessa tillögu,“ segir Einar Þorsteinnson, formaður borgarráðs Reykjavíkur. 

Borgarráð hafi falið skóla- og frístundasviði að útfæra þjónustusamning við félög dagforeldra á þeim tíma sem tillagan var samþykkt í júní. Sá samningur sé nú á lokametrunum. 

„Það er í mínum huga alveg útilokað að foreldrar þurfi að líða fyrir það að sú vinna hafi ekki gengið nægilega hratt,“ segir Einar. Niðurgreiðslurnar verði því gerðar afturvirkar þegar þjónustusamningurinn hefur verið kláraður. „Ég sé fyrir mér að við klárum þetta bara á næstu vikum,“ segir Einar. 


Tengdar fréttir

Nýir dag­for­eldrar fá milljón í stofn­styrk

Formaður borgarráðs segir nýjar tillögur sem borgarráð samþykkti í gær um starfsemi dagforeldra spara barnafólki tugi þúsunda. Á meðal þess sem tillögur kveða á um er að nýir dagforeldrar fái milljón í stofnstyrk. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×