Innlent

Sprautaði spritti framan í opin­beran starfs­mann og sló hann í and­litið

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur tekur mál mannsins fyrir.
Héraðsdómur Reykjavíkur tekur mál mannsins fyrir. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist með ofbeldi að konu, sem var við skyldustörf sín sem opinber starfsmaður. 

Í ákæru á hendur manninum segir að í byrjun maí í fyrra hafi hann í móttökusal ótilgreindar stofnunar í Reykjavík veist að konunni, sprautað sótthreinsivökva í andlit hennar, tekist á við hana og veitt henni högg í andlit með gifsklæddri hendi, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægra kinnbeini, eymsli í nefrót og hægra megin á enni, stífleika í hálsi og herðum, bólgu og eymsli í báðum ökklum og eymsli og bólgu í fingrum hægri handar.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist fyrir hönd konunnar að maðurinn verði dæmdur til að greiða henni eina milljón króna í miskabætur, enda hafi hann valdið henni líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þá er málskostnaðar einnig krafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×