Innlent

Málinu lokið og hefur engu við á­litið að bæta

Lovísa Arnardóttir skrifar
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir málinu lokið af hálfu embættis hans. 
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir málinu lokið af hálfu embættis hans.  Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur engu við álit sitt að bæta nú þegar ráðherra hefur sagt af sér. Hann segir málinu lokið af hálfu embættis hans. 

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir máli sem tengist sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka nú lokið af hálfu embættis hans en niðurstaða álits er að fjármála- og efnahagsráðherra hafi verið vanhæfur við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. 

Bjarni Benediktsson sagði af sér sem ráðherra á blaðamannafundi í morgun og sagði sér ekki stætt miðað við þessa niðurstöðu umboðsmanns. Skúli segir ekki sitt að bregðast við þessum viðbrögðum ráðherra.

„Ég vísa til álitsins. Það hefur verið birt ásamt öllum svörum ráðuneytisins. Ég hef engu við það að bæta og tel ekki rétt að tjá mig um viðbrögð ráðherra,“ segir Skúli að lokum.

Álit embættisins var birt í morgun en er dagsett 5. október. Skúli segir það eðlileg vinnubrögð að gefa þeim sem málið varðar tíma til að bregðast við áður en álit er birt.

„Þetta er töluvert langt álit og það var talið eðlilegt að þarna gæfist ráðuneytinu eitthvað tóm til að kynna sér það áður en það yrði birt. Þetta er í samræmi við verklag hér innanhúss,“ segir Skúli og að alla jafna séu álit birt um tveimur til þremur dögum eftir að þau eru gefin út.

„Þannig að þau sem málið varðar hafi eitthvað tóm til að kynna sér álit áður en það er birt.“

Á vef embættisins má lesa álit umboðsmanns og viðbrögð ráðuneytisins. Skúli segir að núna sé málinu lokið af hálfu embættisins með þeim tilmælum sem lögð eru fram í álitinu.

„Þau tilmæli, eins og hægt er að lesa, tengdust þeirri endurskoðunarreglu sem fram fer hjá ráðuneytinu og svo að frekari ráðstöfun á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“


Tengdar fréttir

„Þetta er rétt á­kvörðun“

Krist­rún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, segist telja á­kvörðun Bjarna Bene­dikts­sonar, formanns Sjálf­stæðis­flokksins, um að segja af sér sem fjár­mála­ráð­herra vera rétta. Hún segir á­kvörðunina hafa komið sér á ó­vart.

„Bjarni maður að meiri“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að hún telji ákvörðun Bjarna Benediktssonar að segja af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra vera rétta ákvörðun. Hún segir álit umboðsmanns um hæfi Bjarna vera rétta og ekki koma á óvart.

Bjarni segir af sér sem fjár­mála­ráð­herra

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem fjármála-og efnahagsráðherra vegna mats umboðsmanns Alþingis á hæfni hans við söluna á Íslandsbanka. Í ljósi þess að faðir Bjarna var á meðal kaupenda hefði Bjarna brostið hæfi þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um söluna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×