Innlent

„Þetta er rétt á­kvörðun“

Oddur Ævar Gunnarsson og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Krist­rún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, segist telja á­kvörðun Bjarna Bene­dikts­sonar, formanns Sjálf­stæðis­flokksins, um að segja af sér sem fjár­mála­ráð­herra vera rétta. Hún segir á­kvörðunina hafa komið sér á ó­vart.

„Fyrstu við­brögð eru bara þau að þetta er rétt á­kvörðun. Hann er að axla á­byrgð og það er alveg rétt að ráð­herra var ekki lengur kleift að sinna sínum verk­efnum,“ segir Krist­rún í sam­tali við frétta­stofu.

„Hann hefur náttúru­lega verið núna fjár­mála­ráð­herra nær ó­slitið í tíu ár þannig þetta eru mikil tíma­mót en það er það er kannski ekki mikið meira um þessa á­kvörðun að segja á þessu stigi.“

Kom þetta þér á ó­vart?

„Ég get alveg viður­kennt að þetta kom mér á ó­vart. Það hefur mikið gengið á. Allt sem hefur verið rann­sakað í þessu máli, Ís­lands­banka­málinu, það hefur komið illa út. Rann­sóknar­nefndin, skýrsla FME og svo núna þetta og það hafa komið upp mörg til­vik þar sem þetta hefði getað átt sér stað eða hann hefði getað tekið þessa á­kvörðun en aðal­málið núna er að þetta er rétt á­kvörðun og það liggur fyrir að hann gat bara ekkert sinnt þessu em­bætti lengur.“

Bjarni hafi verið rúinn trausti

Bjarni sagði meðal annars á blaða­manna­fundi í morgun að hann væri ó­sam­mála ýmsu í á­liti um­boðs­manns. Hann hefði engu að síður á­kveðið að virða niður­stöðu um­boðs­mannsins.

„Ég held að það liggi alveg fyrir að það hvernig staðið er að sölu á fyrir­tæki í ríkis­eigu er mjög mikil­vægt og það er ekki hægt að líta fram hjá því að benda á ein­hverja niður­stöðu. Niður­staðan er sú að fjár­mála­ráð­herra var rúinn trausti eftir þetta ferli og þetta hafði líka á­hrif á traust á fjár­mála­kerfinu í heild sinni,“ segir Krist­rún.

„Þannig það er ekki hægt að bera fyrir sig að þetta hefði ekki haft nein á­hrif þó efnis­lega hefði hann verið á­nægður með niður­stöðuna. Niður­staðan snýst ekki bara um verð­miðann sem fékkst fyrir bankann heldur hvert við­horf al­mennings var gagn­vart ráð­herra, ríkis­stjórn og fjár­mála­kerfinu vegna þess hvernig var haldið utan um þessa sölu.“

Ríki­stjórnin þurfi að svara

Hvaða á­hrif heldurðu að þetta geti haft á ríkis­stjórnar­sam­starfið?

„Fjár­mála­ráð­herra er að hætta að eigin sögn vegna þess að hann telur sér ekki kleift að halda á­fram að sinna sínum verk­efnum og ég held að ríkis­stjórnin þurfi nú bara að svara þeirri spurningu hvort henni sé kleift að sinna þeim verk­efnum sem liggja fyrir og skipta fólkið í landinu máli.“

Krist­rún segist sér­stak­lega hugsa um stóru vel­ferðar­málin og efna­hags­málin. Hún geti lítið sagt um fram­haldið þar sem hlutirnir gerist hratt.

Ó­tækt að fara í á­fram­haldandi sölu

Krist­rún segir ljóst að það sé alveg ó­tækt að hægt verði að fara í á­fram­haldandi sölu á Ís­lands­banka. Ríkis­stjórnin hafi ekki traust til að klára það ferli.

„Þrátt fyrir að fjár­mála­ráð­herra hafi stigið frá er ýmis­legt sem þarf að koma betur. En allt sem hefur verið rann­sakað í þessu máli hefur komið illa út þannig það þarf að fara mjög var­lega í næstu skref og ég trúi ekki öðru en að á­fram­haldandi sala sé núna á ís.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×