Innlent

Þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins heyrðu tíðindin á sama tíma og þjóðin

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hildur segist, sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki þurfa að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna málsins að svo stöddu.
Hildur segist, sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki þurfa að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna málsins að svo stöddu. Vísir/Vilhelm

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins heyrði fréttirnar af afsögn Bjarna Benediktssonar á sama tíma og aðrir, þegar hann tilkynnti hana á Blaðamannafundi í morgun. Hann hafði þó greint frá áliti umboðsmanns Alþingis á fundi með þingflokknum í morgun.

Frá þessu greinir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Vísi. Hún segir fregnirnar mikil vonbrigði

„Mér þykir Bjarni maður að meiri. Þó hann sé ósammála forsendum álitsins, þá trúi hann á samfélag þar sem beri að virða niðurstöðu sem þessa,“ segir hún.Hildur segir þó að fregnirnar komi ekki á óvart þar sem Bjarni sé mikill heiðursmaður. 

Bjarni Benediktsson tilkynnti um ákvörðun sína að hætta sem fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi í morgun.Vísir/Vilhelm

Henni finnist þó niðurstaðan ósanngjörn, vegna þess að unnið hafi verið af miklum heilindum að Íslandsbankasölunni.

„Þetta er auðvitað ákveðið áfall. Bjarni er búinn að vera framúrskarandi fjármálaráðherra og á ofboðslega mikinn þátt í því á hversu góðum stað okkar samfélag er. Ég held að við séum öll að meðtaka þetta að svo stöddu,“ segir Hildur.

Hún segir að Bjarni hafi fullan stuðning þingflokksins um hvaða frekari ákvarðanir hann taki um framtíð sína, en hann segist eiga eftir að ákveða hvort hann muni halda áfram þingmennsku eða taka við öðru ráðuneyti.

Jafnframt segist Hildur, sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki þurfa að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna málsins. Að minnsta kosti í fljótu bragði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×