Enski boltinn

Gagn­rýnir reglu­verk deildarinnar eftir að stuðnings­maður lést

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Richie Wellens ræðir við stuðningsmann sem gerði sér leið úr stúkunni til að láta vita af því sem var í gangi.
Richie Wellens ræðir við stuðningsmann sem gerði sér leið úr stúkunni til að láta vita af því sem var í gangi. Chris Vaughan/Getty Images

Derek Reynolds, stuðningsmaður C-deildarliðs Leyton Orient á Englandi, lést á meðan leik liðsins gegn Lincoln stóð á þriðjudaginn var. Hann var 74 ára gamall. 

Richie Wellens, þjálfari Orient gagnrýnir regluverk deildarinnar sem kveður á um að leikurinn verði að halda áfram þó það sé verið að hjartahnoða einstakling á hliðarlínunni.

Staðan var 1-0 Orient í vil þegar stuðningsmaður liðsins bað annan af aðstoðardómurum leiksins að stöðva leikinn svo hægt væri að sinna Reynolds sem var meðvitundarlaus. Læknateymi vallarins mætti en mínútu síðar var leikurinn farinn aftur af stað. 

Þá gerðu 20 manns sér leið úr stúkunni og á völlinn sjálfan þar sem þau settust niður í mótmælaskyni við að leikurinn færi fram á meðan það var verið að reyna hnoða lífi í Reynolds. Eftir að áhorfendurnir voru farnir aftur upp í stúku átti að halda leik áfram en markvörður Lincoln tók það ekki í mál. 

„Þetta var skelfilegt. Við vorum hinum megin á vellinum og dómarinn undirbýr sig fyrir að hefja leik að nýju. Á sama tíma er verið að hnoða manneskju sem er að berjast fyrir lífi sínu, þetta var skelfileg tilfinning,“ sagði þjálfari Orient.

„Ég vorkenndi dómaranum og fjórða dómara leiksins af því reglurnar segja að það verði að halda áfram en við verðum að stöðva leikinn og sjá til þess að það sé í lagi með stuðningsmanninn. Þetta var skelfilegt kvöld og skelfileg lífsreynsla. Þessar reglur ganga einfaldlega ekki upp.“

Á endanum ákvað dómarinn að senda bæði lið inn í klefa og flauta leikinn af, tæpri klukkustund eftir að hann var fyrst stöðvaður. Degi síðar staðfesti Orient að Reynolds hefði látið lífið. Hann hafði stutt félagið allt sitt líf.

Ekki er vitað hvenær leikurinn verður kláraður en staðan var 1-0 Orient vil þegar liðin gengu af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×