Innlent

Vildi spila við­tal við brota­þola

Árni Sæberg skrifar
Verjendur í málinu eru 25 talsins. Ómar Valdimarsson, verjandi þess sem ákærður er fyrir þrjár tilraunir til manndráps er hér lengst til hægri.
Verjendur í málinu eru 25 talsins. Ómar Valdimarsson, verjandi þess sem ákærður er fyrir þrjár tilraunir til manndráps er hér lengst til hægri. Vísir/Vilhelm

Skýrslutökur brotaþola og annarra vitna hófust í morgun og því er töluvert fjölmennara í dómsal í Gullhömrum við aðalmeðferð Bankastrætis Club málsins en síðustu daga. Þónokkrir sem sæta ákæru eru mættir til þess að fylgjast með framgangi mála, þar á meðal sá eini sem ákærður er fyrir að hafa reynt að verða brotaþolum að bana.

Líkt og sakborningar síðustu daga mega vitni ekki hlýða hvert á annað. Því voru verjendur ekki sérstaklega ánægðir með það þegar brotaþoli gekk inn í dómsal í fylgd dómvarða og lögreglumanna á meðan annar brotaþoli gaf skýrslu. Honum var snarlega fylgt út á ný eftir mótmæli verjenda.

Lagði fram ný gögn og vildi sýna myndskeið og spila viðtal

Þá hófst þinghald í morgun á því að Ómar Valdimarsson, verjandi þess sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps, óskaði eftir því að leggja fram frekari gögn í málinu. Hann vildi fá að sýna myndskeið af samfélagsmiðlinum Snapchat en dómari leyfði það ekki. Hann fékk þó að deila út skjáskotum og senda myndskeiðið á aðra verjendur.

Aðrir verjendur mótmæltu því að myndskeiðin og lýsingar á þeim yrðu lögð fram í málinu og sögðu gögnin þegar fram komin og að lýsingar á þeim væru skriflegur málflutningur, sem er óheimill.

Þá óskaði Ómar eftir því að viðtal útvarpsmannsins Gústa B við þá Lúkas Geir og John Sebastian, brotaþola, sem tekið var tveimur dögum eftir árásina, yrði spilað. Dómari tók fyrir það.

Nú eftir hádegi koma önnur vitni en brotaþolar fyrir dóminn og gefa skýrslur. Að þinghaldi loknu í dag verður fjölmiðlabanni aflétt og þá verður umfjöllun um aðalmeðferðina birt á Vísi.


Tengdar fréttir

Fá ekki að hlusta hver á annan

Ákveðið var í undirbúningsþinghaldi í Bankastræti-Club málinu í morgun að sakborningar myndu ekki sitja inni í dómsal í Gullhömrum. Þeir munu sitja því frammi og koma inn einn af öðrum. Verjendur mótmæla ákvörðuninni. Á fimmtudag verður fjölmiðlabanni aflétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×