Fótbolti

Rapinoe: Líka stolt af því af við gerðum heiminn að aðeins betri stað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe kvaddi bandaríska landsliðið endanlega í nótt. Magnaður leikmaður og mögnuð baráttukona utan vallar líka.
Megan Rapinoe kvaddi bandaríska landsliðið endanlega í nótt. Magnaður leikmaður og mögnuð baráttukona utan vallar líka. AP/Erin Hooley

Bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe lék í nótt sinn síðasta landsleik en bandaríska landsliðið vann þá 2-0 sigur á Suður Afríku í kveðjuleik goðsagnarinnar.

Þetta var 203. landsleikur hinnar 38 ára gömlu Rapinoe en hún hafði tilkynnt það fyrir HM í sumar að hún ætlaði að hætta í landsliðinu eftir heimsmeistaramótið.

Bandaríska landsliðið olli miklum vonbrigðum á heimsmeistaramótinu og datt út í sextán liða úrslitum keppninnar.

Bandaríska sambandið skipulagði kveðjuleik fyrir Rapinoe sem og fyrir Julie Ertz sem fékk að kveðja í öðrum vináttulandsleik á móti Suður Afríku þremur dögum fyrr.

Rapinoe bar fyrirliðabandið í leiknum í nótt og lék fyrstu 54 mínútur leiksins. Hún yfirgaf þá völlinn við dynjandi lófaklapp.

Hún gat ekki haldið aftur af tárunum í leikslok enda mikil tímamót fyrir hana.

„Það gerir mig mjög stolta að við náðum svona góðum árangri inn á fótboltavellinum en ég er líka stolt af því af við gerðum heiminn að aðeins betri stað,“ sagði Megan Rapinoe.

Þar vísar hún til þess að Rapinoe fór fyrir réttindabaráttu landsliðsins utan vallar en bandaríska kvennalandsliðið fær nú loksins sömu bónusa og umgjörð og karlalandsliðið.

Rapinoe varð tvisvar sinum heimsmeistari með bandaríska landsliðinu og vann bæði Ólympíugull og Ólympíubrons með liðinu.

Hápunktur ferilsins var örugglega HM 2019 þegar Rapinoe var bæði valin besti leikmaður mótsins sem og að hún varð markadrottning. Í kringum mótið vakti hún líka heimsathygli sitt við orðastríð við þáverandi forseta Bandaríkjanna Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×