Innlent

Rannsókn á hvarfi Magnúsar heldur áfram

Jón Þór Stefánsson skrifar
Magnús Kristinn er fæddur árið 1987. Hann hefur nú verið týndur í viku í Dóminíska lýðveldinu.
Magnús Kristinn er fæddur árið 1987. Hann hefur nú verið týndur í viku í Dóminíska lýðveldinu.

Rannsókn lögreglu á máli Magnúsar Kristins Magnússonar, sem leitað er í Dóminíska lýðveldinu, heldur áfram.

Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustöðinni á Dalvegi, þar sem rannsókn málsins fer fram, staðfestir það í samtali við Vísi. Svo virðist sem engar nýjar lykilupplýsingar hafi komið fram í málinu.

„Við erum í samskiptum við yfirvöld í Dóminíska lýðveldinu. Það er eftirgrennslan í gangi og við erum að skoða ýmsar möguleika,“ segir Heimir.

Hann segir yfirvöldin erlendis hafa verið samstarfsfús. Með hjálp þeirra hafi einhverjar upplýsingar komið í ljós sem hafi þó áður legið fyrir.

„Það hefur ekkert nýtt komið fram,“ segir Heimir.

Lögreglan hefur leitast eftir því að fá gögn úr síma Magnúsar. Síðast þegar Heimir vissi voru þau gögn ekki komin á borð lögreglu.

Hann tekur fram að lögreglan hér heima muni „að sjálfsögðu“ halda rannsókn málsins áfram.

Greint var frá hvarfi Magnúsar í íslenskum fjölmiðlum um síðustu helgi. Hann átti bókað flug til Frankfurtar viku áður, en skilaði sér ekki í það flug.

Systir Magnúsar, Rannveig Karlsdóttir, steig í kjölfarið fram og greindi frá því að ekkert benti til ólöglegs athæfis.

Þá sagði hún frá því að Magnús hefði glímt við andleg veikindi fyrir nokkrum árum og að hún óttaðist að þau hefði tekið sig upp á ný.

„Fjölskyldan er öll örmagna. Við erum auðvitað rosalega áhyggjufull. Maður sefur svo sem ekki mikið og borðar ekki mikið. Stundum finnst manni að maður nái ekki að hugsa skýrt eða halda utan um þetta allt saman því við höfum öll svo miklar áhyggjur,“ sagði Rannveig í Bítinu á Bylgjunni á mánudag.

Magnús Kristinn er fæddur 1987, um það bil 185 sentímetrar á hæð, grann- og íþróttamannslega vaxinn. Hann er með gráblá augu, dökkhærður, mjög snöggklipptur og með dökka skeggrót.

Þeir sem gætu haft upplýsingar um ferðir Magnús­ar er bent á að hafa sam­band við lög­regl­una á höfuðborg­ar­svæðinu í síma 444-1000 eða við syst­ur Magnús­ar, Rann­veigu Karls­dótt­ur, í síma 660-4313.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.