Innlent

Segir at­burða­rásina hafa þróast út í múg­æsingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákærðu segja að aðeins hafi staðið til að hræða brotaþola og fá þá til að láta af ógnunum og ofbeldi.
Ákærðu segja að aðeins hafi staðið til að hræða brotaþola og fá þá til að láta af ógnunum og ofbeldi. Vísir/Vilhelm

Maður á fertugsaldri sem er meðal ákærðu í Bankastræti Club-málinu svokallaða neitar því staðfastlega að vera ofbeldismaður og segist ekki hafa haft í hyggju að fara inn hið örlagaríka kvöld þegar hópur veittist að þremur mönnum á skemmtistaðnum.

Frá þessu segir maðurinn í greinagerð vegna málsins sem RÚV hefur undir höndum.

Í greinargerðinni segist hann reka dyravörslufyrirtæki en að ákveðnir hópar hafi viljað bola honum úr starfi til að geta tekið starfsemina yfir. Honum hafi til að mynda verið rænt og hann pyntaður fyrir þremur árum þannig að hann var nær dauða en lífi.

Samkvæmt RÚV segist maðurinn hafa sofið með brunavarnarteppi fyrir svefnherbergisglugganum af ótta við bensínsprengjuárás en hann hafi aldrei gripið til ofbeldis eða hefndaraðgerða.

Maðurinn segir að aðeins hafi staðið til að hræða mennina þrjá en atburðarásin hafi þróast yfir í múgæsingu. Hópurinn hafi verið saman kominn til að fá þremenningana til að hætta ógnartilburðum gegn ákærðu og fjölskyldum þeirra.

Þá segir maðurinn að flestir sakborningarnir hafi borið vitni um að árásin hafi alls ekki verið skipulögð og gerir athugasemdir við þá ályktun lögreglu sem og tilraunir hennar til að gera hann að höfuðpaur í málinu.

Samkvæmt RÚV hafa fimm ákærðu skilað inn greinargerð vegna málsins og segir annar að umræddur hópur sem kom saman við skemmtistaðinn hafi samanstaðið af smærri vinahópum. Menn hafi verið þarna á eigin forsendum og sakborningarnir haft mismikil tengsl við brotaþolana.

Hann hafi ekki vitað til þess að menn væru eða yrðu vopnaðir.

Annar segist ekki hafa vitað til annars en að til stæði að hræða brotaþolana og þá segjst tveir ákærðu alls ekki hafa verið á staðnum.

Aðalmeðferð í málinu hefst 25. september næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×