Innlent

Mat­væla­stofnun stað­festir eldis­lax frá Arctic Sea Farm í fjölda áa

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ljósmyndir úr dróna frá laxeldi í Patreksfirði.
Ljósmyndir úr dróna frá laxeldi í Patreksfirði. Vísir/Einar

Matvælastofnun hefur staðfest að eldislax, strokulax frá Arctic Sea Farm á Patreksfirði, hafi fundist í fjölda áa, meðal annars í Víðidalsá, Vatnsdalsá og í Selá í Ísafjarðardjúpi. 

34 laxar voru sendir til greiningar en sjö sem veiddust í Mjólká í Arnarfirði reyndust villtir. 26 eldislaxa var hægt að rekja til eldissvæðis Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði. Ekki tókst að rekja uppruna staks eldislax sem einnig veiddist í Mjólká en ljóst er að restin hafi komið úr sjókvíum Arctic Sea.

Eldislaxinn veiddist í Patreksfirði, Örlygshöfn, Sunnudalsá, Mjólká, Laugardalsá, Ísafjarðará, Selá í Ísafjarðardjúpi, Miðfjarðará, Hópinu, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá í Dölum og Staðarhólsá/Hvolsá.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Greint var frá því hinn 20. ágúst síðastliðinn að tvö göt hafi fundist á sjókví Arctic Sea Farm en Matvælastofnun taldi að sennilega væri ekki um stór göt að ræða. Í kjölfarið fyrirskipaði stofnunin að slátra skyldi öllum löxum í kvínni, sem voru rúmlega 83 þúsund.

Laxveiðimenn eru uggandi yfir stöðunni og greindi veiðimaðurinn Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson frá því fyrr í vikunni að ástandið væri miklu verra en hann og kollegar hans hefðu getað ímyndað sér. 


Tengdar fréttir

„Fiskarnir bera augljós merki um að vera eldislaxar“

Óttast er að eldislax gangi upp fjölda laxveiðiáa á Norðvesturlandi eftir slysasleppingar úr sjókvíeldum. Hafrannsóknarstofnun segir líklega strokulaxa hafa sést í teljurum í ám og birti í dag mynd af þessum lax sem veiddist í Laugardalsá í síðustu viku og er talinn vera eldislax.

Strokulax Arctic Fish sennilega borist í ár á Vestfjörðum

Grunur er um að strokulax frá fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish hafi veiðst í nokkrum laxveiðiám á Vestfjörðum að undanförnu. Tvö göt fundust á kví fyrirtækisins í Patreksfirði fyrir rúmri viku. Matvælastofnun segir að sennilega sé ekki um stórt strok að ræða. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×