Innlent

Flutningur færan­legrar skóla­byggingar setti allt í upp­nám í Hlíðunum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Húsið er nokkuð stórt og fjarlægja þurfti skilti vegna þessa. Á járnstubbinn keyrði bíll, en ökumaður bílsins hugðist smeygja sér fram hjá flutningabílnum.
Húsið er nokkuð stórt og fjarlægja þurfti skilti vegna þessa. Á járnstubbinn keyrði bíll, en ökumaður bílsins hugðist smeygja sér fram hjá flutningabílnum. Vísir/Þórdís

Flutningur færanlegrar skólabyggingar olli töluverðu uppnámi í Hlíðunum í Reykjavík á tólfta tímanum í kvöld. Fjarlægja þurfti umferðarskilti í Lönguhlíð fyrir flutningana vegna stærðar skólabyggingarinnar en tveir bílar keyrðu, með skömmu millibili, upp á stálstubba sem eftir urðu af skiltunum.

Íbúi í hverfinu segir í samtali við fréttastofu að töluverður viðbúnaður hafi verið á vettvangi: þrír lögreglubílar, tveir slökkviliðsbílar og fullt af fólki. 

Að hennar sögn komu verktakar í dag og fjarlægðu áðurnefnd umferðarskilti sem meðal annars skilja að hjólastíga og umferðargötuna sjálfa. Járnstubbarnir hafi hins vegar verið skildir ómerktir eftir. Í myrkrinu hafi tveir bílar, með um tíu mínútna millibili, ekið ofan á stubbana. 

Töluverð olía lak úr öðrum bílanna í kjölfar óhappsins og vann slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að hreinsun vegarins.Vísir/Þórdís

Bjarni Ingimarsson hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að annar bílana hafi reynt að „troða sér fram hjá“ húsinu stóra en lent í ógöngum í kjölfarið. Nokkur olía hafi lekið úr bílnum og slökkviliðið því kallað út til að hreinsa vettvanginn. Að hans sögn tafðist umferð nokkuð, enda komst einingin færanlega hvorki lönd né strönd, og engir bílar fram hjá.

Aðgerðum slökkviliðs á vettvangi er nú lokið og halda flutningar hússins áfram í fylgd með lögreglu.

Töluverður viðbúnaður var á vettvangi.Vísir/Aníta



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×