Innlent

„Risa­stór“ skemmti­ferða­skipa­dagur í Reykja­vík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þéttsetinn Skarfabakki í morgun. Alls eru fimm skemmtiferðaskip í borginni í dag.
Þéttsetinn Skarfabakki í morgun. Alls eru fimm skemmtiferðaskip í borginni í dag. Vísir/Arnar

Fimm skemmtiferðaskip eru nú við höfn í Reykjavík og dagurinn einn sá allra stærsti á vertíðinni, að sögn hafnarstjóra. Hann telur að um tíu þúsund manns gætu streymt inn í borgina úr skipunum í dag.

Skemmtiferðaskipin við Skarfabakka eru orðin nær órjúfanlegur hluti borgarlandslagsins yfir sumarmánuðina, þar sem þau gnæfa tröllvaxin og reykspúandi yfir lágreista byggðina. Og nú er sumarið ekki eitt undir - vertíðin er sífellt að lengjast, að sögn Gunnars Tryggvasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna.

„Þetta hjálpar okkur að dreifa álaginu, að fá traffík inn á axlirnar svokölluðu, apríl og september, en við höfum líka önnur sjónarmið sem valda því að þetta dragist of lengi inn í haustið. Það eru öryggissjónarmið vegna veðurs og vinda. Það hefur gerst að undanförnu að það hefur teygst á vertíðinni. Við höfum verið að fá þetta meira inn í septembermánuð,“ segir Gunnar.

Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.Vísir/Arnar

Og í dag, 7. september, er örtröð. Þrjú skemmtiferðaskip liggja niðri við Skarfabakka, fjórða er úti á akkeri að bíða eftir að pláss losni og hið fimmta við Miðbakka niðri í bæ. Gunnar segir að stærstu skemmtiferðaskipadagana beri oftast upp í júlímánuði.

„Við beitum ýmsum ráðum til að jafna þetta sem mest en stundum hafa komið [stærri] dagar. Ég man ekki hvort það hafi komið sex skip í sumar. Það getur þó hafa verið, en ef ekki væri þessi dagur í dag þá væntanlega sá stærsti,“ segir Gunnar.

Hann er ekki með það nákvæmlega á takteinunum hversu margir farþegar koma með skipunum í dag en það séu væntanlega ansi margir.

„En ef þetta eru fimm skip og meðaltalið er svona tvö þúsund manns per skip, þá geta þetta verið um tíu þúsund manns sem eru að koma inn í borgina með þessum hætti, á svona risastórum dögum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×