Lífið

„Þetta er það ljótasta sem ein­hver gæti sagt um mig“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tilfinningarnar báru Birgittu Líf ofurliði eins og sjá má í fyrsta þættinum af LXS.
Tilfinningarnar báru Birgittu Líf ofurliði eins og sjá má í fyrsta þættinum af LXS. Stöð 2

Birgitta Líf Björnsdóttir tók gagn­rýni á fyrstu seríu raun­veru­leika­þáttanna LXS, í út­varps­þættinum Lestinni í Ríkisútvarpinu, afar nærri sér. Þetta má sjá í broti úr fyrsta þætti annarrar seríu þáttanna sem frum­sýnd er í kvöld á Stöð 2 og Stöð 2+.

„Ég held ég hafi bara verið brot­hætt akkúrat á þessum tíma­punkti,“ segir Birgitta um gagn­rýnina í brotinu sem horfa má á hér fyrir neðan. Gagn­rýnin vakti tölu­verða at­hygli. Stelpurnar í LXS hafa áður gert stólpa­grín að gagn­rýninni í eigin klippu þegar til­kynnt var að sería tvö væri í bí­gerð.

Hefði viljað sjá stelpurnar missa stjórn á sér

Í gagn­rýninni, sem bar yfir­skriftina „Raun­veru­leiki leiðin­legasta folks sem þú þekkir,“ voru þættirnir gagn­rýndir fyrir að hafa ekki náð því að vera meira en ein­hvers konar heimildar­mynd um frekar þurran vina­hóp.

„Ég hefði notið þáttanna betur ef Birgitta Líf hefði farið í reiði­kast og sparkað í litla hundinn sinn þegar hún komst að því að lúxus­þyrlan sem hún pantaði kæmist ekki upp í fjall til skvísu­hópsins í fyrsta þætti. Hún hefði öskrað: „Veistu ekki hver ég er?” á ein­hvern undir­launaðan að­stoðar­mann um leið og hún hefði ýtt mynda­vélinni frá sér og strunsað í burtu,“ var meðal annars sagt um þættina.

Brotið úr þættinum má sjá í spilaranum neðst í greininni.

Eins og snjó­bolti

Birgitta Líf lýsir því í klippunni að frum­sýning fyrri seríunnar hafi tekist vel til. Síðan hafi hins vegar strákarnir í Æði ó­vænt skotið á stelpurnar og gagn­rýnin í Lestinni birst á sama tíma. Fólk megi hafa sínar skoðanir á stelpunum en þetta hafi verið of mikið á þessum tíma.

„Síðan varð þetta ó­trú­lega per­sónu­legt á mig og nokkrar af okkur og þá fékk maður bara svona, ég brotnaði bara niður. En það er líka bara eðli­legt, það var ekkert endi­lega bara út af þessu, þetta var snjó­bolti og allt kom á sama tíma, þar til að maður sprakk.“

Birgitta var miður sín vegna um­mælanna og há­grét í hópskila­boðum sem hún sendi vin­konum sínum í LXS. Hún segist ekki hafa getað meir á þessum tíma­punkti og furðaði sig í skila­boðunum til vin­kvenna sinna að ein­hver gæti sagt eitt­hvað svona ljótt um sig.

„Af hverju er verið að tala svona um mig eða segja þetta eða hitt? Ég get ekki séð að ég sé að gera slæma hluti gagn­vart neinum og þó ég segi sjálf frá er ég bara rosa­lega góð manneskja og ég kom heim og há­grét og leyfði mér að líða illa í smá tíma.“

Fyrsti þátturinn verður sýndur á Stöð 2 klukkan 19:10 í kvöld. Þátturinn verður svo aðgengilegur á Stöð 2+ strax í kjölfarið.

Klippa: Birgitta Líf brotnar saman í fyrsta þætti af LXS








Fleiri fréttir

Sjá meira


×