Innlent

Ríf­lega 100 veiktust í fjórum matar­tengdum hóp­sýkingum árið 2022

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ekki reyndist unnt að rekja sýkingarnar til ákveðinna matvæla.
Ekki reyndist unnt að rekja sýkingarnar til ákveðinna matvæla. Getty

Fjórar stórar matartengdar hópsýkingar voru tilkynntar til sóttvarnalæknis árið 2022. Tvær voru af völdum nóróveiru, ein af völdum E. coli (EPEC) en í einu tilvikinu er orsakavaldurinn enn óþekktur.

Frá þessu er greint í farsóttaskýrslu fyrir árið 2022.

Fyrsta tilkynningin barst um vorið en hún varðaði veikindi gesta veitingastaðar á höfuðborgarsvæðinu. Veikindi hófust tveimur til þremur dögum eftir máltíðina með hita, ógleði og uppköstum sem vörðu í um viku.

Ekki er vitað hvað olli veikindunum.

Um haustið veiktust samtals 93 einstaklingar í tveimur aðskildum hópsýkingum af völdum nóróveiru.

„Í annarri hópsýkingunni var um að ræða gesti í veislu með heimatilbúnum veitingum auk samstarfsfólk sem hafði neytt matarafganga frá sömu veislu á vinnustað. Í seinna atvikinu veiktust 47 einstaklingar eftir að hafa neytt aðsendra máltíða á vinnustað,“ segir í skýrslunni.

Um haustið barst einnig tilkynning um veikindi tólf einstaklinga eftir máltíð á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu, þar sem helstu einkenni voru kviðverkir, hiti og niðurgangur í allt að viku.

Örverurannsóknir frá hluta þeirra sem greindust leiddu í ljós að um var að ræða E. coli.

„Engar sjúkdómsvaldandi örverur greindust í þeim sýnum sem tekin voru frá matvælum en líklegt telst að EPEC smit hafi borist með matvælum sem snædd voru á veitingastaðnum þetta kvöld.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×