Innlent

Leggja tauga­ó­styrkir Sjálf­stæðis­menn ef til vill sjálfir fram van­traust?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Það eru þingmennríkisstjórnarinnar sem eru opinberlega að daðra við vantraust,“ segir Þorbjörg.
„Það eru þingmennríkisstjórnarinnar sem eru opinberlega að daðra við vantraust,“ segir Þorbjörg. Vísir/Vilhelm

„Sjálfstæðisflokkurinn er farinn á taugum,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar um stöðu stjórnarsamstarfsins. Tilefnið eru vangaveltur um mögulegt vantraust á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Elliði Vignisson, sveitarstjóri Ölfuss, segist gera ráð fyrir því að stjórnarandstaðan leggi fram vantrauststillögu gegn Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra en hann gefur sér að Umboðsmaður Alþingis muni komast að þeirri niðurstöðu að Svandís hafi brotið lög þegar hún frestaði hvalveiðum.

„Sundruð ríkisstjórn virðist ekki geta starfað eftir skýrri stefnu í þágu almennings. Almenningur er að kalla eftir forystu og stefnu - en ríkisstjórnin ræðir það helst núna að leggja fram vantrauststillögu á sig sjálfa,“ segir Þorbjörg í færslu á Facebook nú í morgun.

Hún segir lítið heyrast frá ríkisstjórninni annað en rifrildi en á sama tíma glími almenningur við raunveruleg vandamál; verðbólgu, vaxtahækkanir og rýrnun ráðstöfunartekna. Þá séu kjarasamningar fram undan og óvissan mikil.

Þorbjörg segir ríkisstjórnina „meðvitundarlausa“.

„Ríkisstjórnin er ekki bara stefnulaus í efnahagsmálum. Það er hún í heilbrigðismálum jafnt sem velferðarmálum. Hún er sundruð í löggæslumálum og húsnæðismálum, útlendingamálum sem orkumálum. Raunar í flestum þeim málum sem snerta venjulegt fólk í landinu,“ segir hún.

Vísir hafði samband við Þorbjörgu og spurði hana hvort hún sæi fyrir sér vantrauststillögu gegn matvælaráðherra af hálfu stjórnarandstöðunnar.

„Það eru þingmenn ríkisstjórnarinnar sem eru opinberlega að daðra við vantraust. Leggja þeir það kannski fram sjálfir?“ spyr hún á móti.

„Og hver eru skilaboð þeirra til síns formanns sem er með hliðstætt mál hjá Umboðsmanni Alþingis; möguleg brot á stjórnsýslulögum? Aðalatriðið er að ríkisstjórnin er svo sundruð að hún getur ekki sýnt forystu í þeim málum sem venjulegt fólk er að glíma við. Það eru efnahagsmálin; vextir og verðbólga, og innviðir; heilbrigðisþjónusta fyrir fólkið í landinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×