Innlent

„Ekki ljóst að svo stöddu hvenær þetta kemst í lag“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bæði Play og Icelandair hafa fundið fyrir biluninni í Bretlandi.
Bæði Play og Icelandair hafa fundið fyrir biluninni í Bretlandi. Vísir/Vilhelm

Íslenskar flugvélar sitja nú fastar í Bretlandi vegna bilunar í flugstjórn. Play og Icelandair hafa bæði fundið fyrir þessu vandamáli, sem nú er unnið að því að leysa. 

Tvær vélar Play voru fastar á Bretlandseyjum. Önnur þeirra er nú komin í loftið frá London, en hin situr enn Glasgow og fer i loftið klukkan tvö. Þetta segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við Vísi.

„Afgreiðsla á flugum eru í algjöru lágmarki þessa stundina,“ segir Birgir, sem bendir á að um sé að ræða bilun hjá Bretunum sem þau geti haft lítil áhrif á.

Hann á ekki von á því að þessi bilun í Bretlandi muni hafa mikil frekari áhrif á flug Play, nema þá að hún ílengist til morgundagsins. Þess má þó geta að flug til Evrópu geta ekki flogið yfir Bretland vegna málsins þessa stundina.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir félagið eiga fjórar vélar á fjórum flugvöllum í Bretlandi þessa stundina og tekur hann fram að staðan sé óljós. Nú sé þó unnið að því að koma vélunum á áfangastað.

„Það er ekki alveg vitað enn þá hvaða áhrif þetta mun hafa. Allir eru auðvitað að reyna að komast að og þetta hefur á margar ferðir hjá mörgum flugfélögum,“ segir hann í samtali við Vísi.

„Það er ekki ljóst að svo stöddu hvenær þetta kemst í lag. En þegar þetta kemst í lag hjá þeim í Bretlandi þá mun þurfa að vinda af þeim röskunum sem hafa þegar orðið,“ bætir hann við og útskýrir að það gæti komið til seinkana á vélum Icelandair.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×