Innlent

Hvetur Ís­lendinga til að fram­lengja hval­veiði­bannið

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Momoa þekkir vel til á Íslandi eftir að hafa spriklað við strendur Djúpavíkur.
Momoa þekkir vel til á Íslandi eftir að hafa spriklað við strendur Djúpavíkur.

Bandaríski stórleikarinn Jason Momoa hvetur íslensk stjórnvöld til þess að framlengja veiðibann á stórhvelum og hætta hvalveiði alfarið. Hann segir Íslendinga hugrakka að hafa bannað hvalveiðar í sumar.

„Í sumar tók Ísland hugrakka ákvörðun, þann 20. júní, um að stöðva hvalveiðar í allt sumar vegna áhyggja af dýravelferð,“ segir Momoa í skilaboðum sem leikkonan Hera Hilmarsdóttir birtir á samfélagsmiðlum. En Hera hefur verið ein af þeim sem berjast gegn hvalveiðum hér á íslandi.

„Hvalir voru veiddir með sprengiskutlum, sumir kvöldust í allt að tvo klukkutíma áður en þeir drápust. Tveir þriðju hvalkýr og margar þeirra þungaðar,“ segir Momoa í því sem hann kallar mikilvæg skilaboð varðandi það sem sé að gerast á Íslandi.

Tignum þessi fallegu dýr

Momoa, sem er frá Hawaii eyjum, þekkir ágætlega til hér á Íslandi en hann hefur komið hingað til að taka upp atriði sem ofurhetjan Aquaman.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Momoa tjáir sig um hvalveiðar Íslendinga en hann setti inn færslu um málefnið í maí, áður en hvalveiðibannið var sett á. Vakti það töluverða athygli.

„Íslenska ríkisstjórnin er núna að ákveða hvort að hún eigi að framlengja veiðibannið út september, restina af veiðitímabilinu,“ segir Momoa í lok skilaboðanna. „Ég hvet Íslendinga til að halda í veiðibannið og hætta hvalveiðum alfarið og ég styð þá Íslendinga sem eru að berjast fyrir heilbrigðum höfum og fyrir hvalina. Tignum þessi fallegu dýr og verðum réttu megin í mannkynssögunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×