Fótbolti

Messi búinn að koma Inter Miami í annan úr­slita­leik: Hetja án þess að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki hjá Inter Miami í nótt.
Lionel Messi fagnar marki hjá Inter Miami í nótt. Getty/Andy Lyons

Lionel Messi skoraði reyndar ekki í nótt en hann var samt aðalmaðurinn þegar lið hans Inter Miami tryggði sér sæti í öðrum úrslitaleiknum á tímabilinu eftir að sá argentínski gekk til liðs við félagið.

Inter Miami vann FC Cincinnati 5-4 í vítakeppni eftir að liðið höfðu gert 3-3 jafntefli í leiknum sjálfum. Þetta var undanúrslitaleikur Opnu bandarísku bikarkeppninnar, U.S. Open Cup.

Messi var búinn að skora í fyrstu sjö leikjum sínum með Inter, samtals tíu mörk, en hann náði ekki að skora í þessum leik.

Argentínski snillingurinn sýndi hins vegar mikilvægi sitt á úrslitastund í þessum leik.

Inter lenti 2-0 undir í leiknum eftir tæplega klukkutíma leik og útlitið var ekki bjart.

Messi kom til bjargar og átti tvær stoðsendingar á hausinn á Leonardo Campana sem skoraði tvívegis og jafnað leikinn. Campana skoraði fyrst á 68. mínútu og svo aftur á sjöundu mínútu í uppbótatíma.

Inter komst yfir í framlengingunni með marki Josef Martínez en Cincinnati náði að jafna og tryggja sér vítakeppni.

Inter vann vítakeppnina 5-4 þar sem Messi nýtti sína vítaspyrnu og markvörðurinn Drake Callender var hetjan með því að verja eitt víti Cincinnati manna.

Þetta var önnur vítakeppnin sem Inter vinnur á fjórum dögum en liðið vann deildabikarinn um síðustu helgi eftir vító.

Miami spilar nú annan úrslitaleik en hann verður á móti Houston Dynamo 27. september næstkomandi.

Messi er búinn að spila átta bikar- eða deildabikarleiki með Miami liðinu og í þeim er hann með tíu mörk og þrjár stoðsendingar. Við bíðum aftur á móti enn eftir fyrsta leik hans í MLS-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×